143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[02:45]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Svona getur stjórnmálaumræða hjá siðuðu fólki ekki gengið fyrir sig. Formaður stjórnmálaflokks í lýðræðisríki sem 24 þús. kjósendur hafa léð atkvæði sitt óskar eftir því að ræða eitt af stærstu málum samtímans við formenn stjórnarflokkanna. Hann gefur á því góðan fyrirvara. Þeir mæta ekki til umræðu.

Hugmyndin með Alþingi er að það veiti framkvæmdarvaldinu aðhald, ekki að framkvæmdarvaldið skrópi bara. Það er hlutverk forseta Alþingis að sjá svo um að þinghaldið gangi þannig fyrir sig að sómi sé að. Það er enginn sómi að því að formenn stjórnarflokkanna skrópi við umræðu um stórmál þegar formaður annars stjórnmálaflokks (Forseti hringir.) í umboði 24 þús. kjósenda óskar eftir því að eiga orðastað við þá. (Forseti hringir.) Þetta er okkur öllum til vansa, virðulegur forseti, einnig yður.