143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[03:00]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ekki er mikil reisn yfir þessu. Ég held að það sé nokkuð ljóst að forsætisnefnd og þingflokksformenn þurfi að fara vandlega yfir það með forseta með hvaða hætti samskiptum skuli háttað á þessu kjörtímabili. Miðað við það sem gerðist hér í kvöld er greinilegt að reglur og hefðir skipta voða litlu máli. Það fer bara eftir því hver á í hlut.

Það eru þá ágætisskilaboð til okkar að vera á varðbergi og treysta engu. Það eru skilaboðin sem við tökum með okkur af þessum næturfundi.

Mig langar að nefna nokkra hluti í lokaræðu við þessa fyrri umr., m.a. að ég hef ekki enn fengið neina skýringu á því hvers vegna menn þurfa að drífa þetta svona í gegn. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, kom hér í dag og var með einhverjar skýringar um eitthvað sem gerðist hjá síðustu ríkisstjórn árin 2010, 2011 og 2012, allt eitthvað sem gerðist áður en kosningabæklingur Sjálfstæðisflokksins um þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu var gefinn út. Þetta lá allt fyrir. Allt sem hann tíndi til inn í sinn rökstuðning lá fyrir áður en menn gáfu loforðin fyrir kosningar. Þetta var allt vitað þannig að þetta eru lélegar eftiráskýringar hjá formanni flokks sem er kominn í bullandi vanda með þetta mál. Annaðhvort eru þetta eftiráskýringar eða menn hafa beinlínis ákveðið að fara með rangt mál í aðdraganda kosninga og lofa einhverju sem þeir vissu að þeir ætluðu ekki að standa við. Það finnst mér öllu alvarlegra, virðulegi forseti.

Rök fjármála- og efnahagsráðherra í dag, formanns Sjálfstæðisflokksins, voru helst þau að fara í gegnum tímabil síðustu ríkisstjórnar og hvernig málið fór allt af stað. Það er í anda þeirrar greinargerðar sem fylgir þessari tillögu sem er einhver versta greinargerð sem ég hef nokkurn tímann séð í þingskjali og ófaglegasta, en látum það nú liggja milli hluta. Gleymum aðeins pólitíkinni og horfum á fólkið sem starfar í okkar góða samfélagi og gerir á hverjum einasta degi ekkert annað en að skapa vöxt, störf, fjármuni og velmegun í samfélaginu. Þetta er fólkið sem starfar til dæmis innan félags atvinnurekenda, er innan Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins, er inni í fyrirtækjum eins og CCP og Marel. Allt þetta fólk og ASÍ hafa skorað á ríkisstjórnina að gera þetta ekki. Ég spurði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í dag hvaða snilld hann sæi í þessari tillögu en ekki fólkið sem er starfandi úti á akrinum á Íslandi við að skapa vöxt og þarf að vinna í þessu umhverfi sem við stjórnmálamenn sköpum því.

Það voru engin svör. Það á með öðrum orðum að loka annarri af þeim leiðum sem við höfum til að reka hér peningastefnu til lengri tíma og það á að loka þeirri leið sem hefur þó trúverðugleika og er alþjóðlega viðurkennd og þekkt. Í staðinn á að halda opinni einni leið einhvern veginn. Það er ekki einu sinni lagt fram hvernig á að gera það. Við höfum ekki hugmynd um það.

Mikil er ábyrgð ráðherra þessarar ríkisstjórnar sem ætla að fara í þennan leiðangur án þess að leggja fram eina einustu áætlun um það hvernig menn ætla að fara að því að stýra hér peningamálum á næstu árum, eingöngu í því skyni að losa sig við meira og minna allt sem gert var í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það er eina ástæðan sem ég get fundið fyrir þessu.

Menn grípa til röksemda eins og þeirra um ómöguleikann sem er einhver sú hlægilegasta sem ég hef nokkurn tíma orðið vitni að vegna þess að þar segja menn almennt að þeir séu vanhæfir sem fulltrúar hjá framkvæmdarvaldinu, sem ráðherrar, vegna þess að þá er ómögulegt fyrir þá að starfa innan ráðuneyta þar sem oft þarf að framfylgja lögum sem menn hafa ekki sjálfir sett eða eru ekki að öllu leyti sammála. Þá eru menn líklega komnir í mikinn vanda og þeim gert algjörlega ómögulegt að starfa innan veggja ráðuneyta. (Forseti hringir.) Það er það sem menn eru að segja með þessum ómöguleikarökum. (Forseti hringir.) Það þýðir að menn segja: Þessari ríkisstjórn er algjörlega ómögulegt að starfa á faglegum grunni. Um það snúast ómöguleikarök formanns Sjálfstæðisflokksins.