143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[03:07]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé rétt og skynsamlegt að farið verði yfir allt þetta mál og hvernig staðan er, ekki síst hvernig farið hefur verið með þessar síðustu mínútur hér í þinginu og af hverju það stafar. Við verðum að reyna að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig.

Ég hafði hugsað mér að nota síðustu mínúturnar til að rýna betur í þessa umdeildu tillögu og greinargerðina með henni.

Fyrsta setningin er augljós. Hæstv. ríkisstjórn vill slíta viðræðum um aðild að ESB og það á að gera án þess að spyrja þjóðina hvort hún sé því sammála eða hvort hún vilji frekar að stjórnin klári viðræðurnar og beri þá niðurstöðu undir þjóðina eins og upphaflega var gert ráð fyrir. Hunsa á áskorun 50 þús. manna og svíkja um leið loforð sem veitt voru fyrir kosningar.

Önnur setningin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Jafnframt ályktar Alþingi að ekki skuli sótt um aðild að Evrópusambandinu á nýjan leik án þess að fyrst fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort íslenska þjóðin stefni að aðild að Evrópusambandinu.“

Engin þjóð sem sótt hefur um aðild hefur farið að eins og þarna er lagt til enda gæti það skapað ýmis vandkvæði þegar þjóðirnar færu að semja um sérlausnir með þjóðaratkvæðagreiðslu í farteskinu um að þjóðin stefni á aðild nánast sama hver niðurstaðan er. Hins vegar hefur það verið þannig hjá öðrum þjóðum að niðurstaðan hefur verið borin undir þjóðina eftir viðræður og oftast verið samþykkt en þó ekki alltaf. Ég er sammála mati allra þeirra þjóða sem sótt hafa um aðild að ESB hvað þetta varðar en að sama skapi ósammála hæstv. ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Hæstv. ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er einstök í þessu máli eins og fleirum eins og dæmin sanna.

Í greinargerð með tillögunni segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Þá hefur lengi legið fyrir að meiri hluti íslensku þjóðarinnar er á móti því að Ísland gangist undir skilmála Evrópusambandsins og gerist þannig meðlimur þess þótt vilji sé fyrir að kanna möguleika á aðild.“

Er þetta nægilega traustur grunnur til að byggja á? Hvaða heimildir liggja undir þessum fullyrðingum? Göngum við ekki nú þegar undir skilmála Evrópusambandsins í 75% allra mála án þess að hafa möguleika á nokkurri aðkomu að ákvörðun um þá skilmála í gegnum EES-samninginn? Ef við værum meðlimir í Evrópusambandinu værum við með í allri ákvarðanatöku og gætum beitt okkur sérstaklega í þeim málum sem varða hagsmuni okkar. Ef kannanir eru nægilega traustur grunnur til að byggja á slit á aðildarferlinu, hvað þá með kannanir sem sýna að 82% kjósenda vilja að þessi þingsályktunartillaga verði lögð til hliðar og áframhaldið borið undir þjóðina? Er það ekki enn traustari grunnur og enn betri rök fyrir því að draga þessa tillögu til baka en að halda henni til streitu? Ef stjórnvöld telja sig vita að vilji sé meðal íslensku þjóðarinnar til að kanna möguleika á aðild, eins og segir í greinargerðinni, af hverju vilja þau þá ekki fara að þeim þjóðarvilja?

Þriðja setningin í þingsályktunartillögunni hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að treysta tvíhliða samskipti og samvinnu við Evrópusambandið og Evrópuríki.“

Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2014 var gert ráð fyrir 36 millj. kr. viðbótarframlagi til að enduropna fastanefnd hjá Evrópuráðinu í Strassborg sem átti að greiða fyrir hagsmunagæslu í málefnum tengdum Íslandi. Á milli umræðna um framhaldið lagði meiri hluti fjárlaganefndar til viðbótarniðurskurð á sendiráðinu upp á 36 millj. kr. sem verður til þess að fastanefndin verður ekki enduropnuð í ár. Meiri hlutinn lagði einnig til 95 millj. kr. viðbótarniðurskurð á aðalskrifstofu utanríkisráðuneytisins sem gera má ráð fyrir að komi einnig niður á hagsmunagæslu í Evrópustarfi en það verði ekki eflt eins og gert hafði verið ráð fyrir í frumvarpinu og greint er frá í texta þess. Ég hlýt því að spyrja hvort hæstv. ríkisstjórn telji sig hafa þingstyrk til að koma þeim hluta ályktunarinnar í gegn sem snýr að því að efla samvinnu við Evrópusambandið og Evrópuríkin. Meiri hluti fjárlaganefndar virðist að minnsta kosti ekki styðja hæstv. utanríkisráðherra í þeim áformum.

Í lok greinargerðarinnar með þessari umdeildu þingsályktunartillögu sem við ræðum hér segir að það sé rétt að hnykkja á því að tillagan byggist á mati á íslenskum þjóðarhagsmunum og því hvernig þeirra verði best gætt. Þetta er sagt þó að þessi tillaga sé byggð á skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands skrifaði um stöðu aðildarviðræðnanna og þróun mála innan ESB og fjalli lítið um helstu hagsmunamálin. Ekki er talin ástæða til að bíða eftir (Forseti hringir.) skýrslu frá Alþjóðamálastofnun sem mun einmitt fjalla um þau mál. Við hv. þingmenn hljótum að gera þá kröfu að ekki verði gengið frá málinu fyrr en sú skýrsla (Forseti hringir.) hafi verið ítarlega skoðuð.