143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[03:13]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það var leiðinlegt að fyrrverandi fjármálaráðherra, fyrrverandi formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Oddný Harðardóttir, nefndarmaður í fjárlaganefnd, skyldi ekki hafa fengið að halda þessa ræðu á eðlilegri tíma. Það er mjög athyglisvert að á sama tíma og ríkisstjórnin boðar stórsókn í hagsmunagæslu og aukna Evrópusamvinnu er hún samt einhvern veginn að skella í lás varðandi aðra framtíðarmöguleika sem aðildarríki að Evrópusambandinu. Stórfelldur niðurskurður fer fram í utanríkisþjónustunni, það er búið að skera mikið niður þar og í Stjórnarráðinu yfir höfuð en sú nýlunda varð á milli umræðna að skorið var niður um 5% til viðbótar. 1/20 af rekstrarfé alls Stjórnarráðsins var skorið niður milli 2. og 3. umr. ef ég man rétt. Það var rétt svo að ráðuneytisstjórar áttuðu sig á því áður en þeir fóru í jólafrí að það varð smáuppnám í fjárhagsáætlun ráðuneytanna.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann hvernig hún sjái fyrir sér að það eigi að vera hægt að framfylgja þessum áætlunum ríkisstjórnarinnar miðað við þær fjárveitingar sem nú hafa verið samþykktar á Alþingi.