143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[03:20]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að við verðum að horfa á málið eins og það liggur fyrir. Þessari tillögu var laumað inn í þingið á föstudagskvöldi og mann grunaði að stjórnarmeirihlutinn áttaði sig á því að tillagan mundi valda miklum deilum og væri að vonast til þess að þingmenn mundu bara gjósa heima hjá sér yfir helgina og væru svo tilbúnir að kokgleypa þetta allt saman eftir helgi.

Það reyndist ekki vera. Það sem meira var, þjóðin vildi þetta ekki heldur. Upphófust mikil mótmæli úti um allt samfélagið og deilur í þinginu. Áfram skal samt haldið og ekkert gefið eftir. Menn gefa eitthvað í skyn hér og þar en fara ekki í almennilegar viðræður, hvorki við forustumenn í þinginu né forustumenn stjórnarandstöðuflokkanna.

Maður hlýtur að spyrja sig: Hvað er það sem liggur undir? Hvaða hagsmunir liggja þarna undir? Það eru ekki hagsmunir heimilanna. Eru það kannski hagsmunir fyrirtækjanna í landinu? Er fjölbreytt atvinnustefna undir? Er það byggðastefna? Það er ekki einu sinni fjallað um þessi stóru hagsmunamál áður en tekin er ákvörðun um að leggja til að slíta viðræðunum. Það er ekki einu sinni hægt að bíða í þrjár vikur eftir skýrslu sem á að fjalla um þau mál. Það má ekki nefna af hverju það er svo mikilvægt fyrir stjórnvöld að slíta þessum viðræðum.

Það skyldi þó ekki vera að hér sé verið að gæta að hagsmunum örfárra (Forseti hringir.) á kostnað hagsmuna þjóðarinnar.