143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[03:22]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég er nokkuð hugsi yfir því hvernig þessari umræðu er að ljúka hér. Mér var sem ungum og vitlausum ráðherra á sínum tíma kennt þrennt í samskiptum við þingið; í fyrsta lagi að mæta alltaf til þings ef ég ætti þess nokkurn kost ef óskað væri eftir því, einfaldlega vegna þess að það flýtti fyrir og það væri sjálfsögð virðing við þann sem slíka ósk bæri fram.

Það var í öðru lagi að sitja bara þegjandi og þolinmóður undir skömmum stjórnarandstöðunnar, það greiddi líka fyrir framgangi stjórnarmála.

Það var í þriðja lagi að svara málefnalegum og gildum spurningum eftir því sem kostur væri þegar þær væru bornar upp.

Mér finnst þetta vera að fara svolítið á skjön. Ég verð að segja alveg eins og er og í fullri hreinskilni að það er til háborinnar skammar hvernig ráðherrar ríkisstjórnarinnar, sérstaklega formenn stjórnarflokkanna, hafa forsmáð þessa umræðu og þingið þar með. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra má vissulega eiga það að hann mætti hér í kvöld og flutti ræðu, en hæstv. forsætisráðherra hefur að mínu mati algerlega slegið met. Ég tel að (Forseti hringir.) virðulegur forseti verði að tyfta ráðherrana (Forseti hringir.) til og gera þeim grein fyrir því að það hefur afleiðingar fyrir þá ef þeir koma svona fram (Forseti hringir.) við þingið. Það getur forseti meðal annars gert með því að fresta umræðum (Forseti hringir.) um þeirra mál ef þeir sjá ekki sóma sinn í að vera hér til að koma þeim áfram.