143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[03:24]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegur forseti. Mig langar að þakka þingmönnum fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir hlý orð um nærveru ráðherrans. Ég hugsa að það að mönnum finnist ráðherrann hafa tekið lítinn þátt í umræðunni kannski gert þessa nærveru eitthvað betri en ef ráðherrann hefði tekið mikinn þátt í umræðunni.

Margt áhugavert hefur komið fram í þessari umræðu. Eðlilega hafa menn lýst áhyggjum sínum, skoðunum og velt fyrir sér framtíðinni og öðru slíku. Nú mun málið ganga til utanríkismálanefndar sem tekur það til meðferðar. Ég treysti því að nefndin fari vandlega yfir málið, sendi það að sjálfsögðu til umsagnar, kalli til sín gesti, hlusti eftir þeirri umræðu sem hér hefur farið fram, hlusti eftir ræðum stjórnarandstöðunnar, hlusti eftir ræðum stjórnarliða sem hér hafa talað einhverjir og velti fyrir sér hvernig best sé að klára þetta mál og þá að sjálfsögðu hvort unnt sé að ná einhvers konar sátt um það eða næstu skref eða hvernig það verður.

Ég útiloka ekkert í því eins og ég hef margoft sagt í þessum ræðustól, í fjölmiðlum og annars staðar. Nú fer málið til nefndar og ég treysti nefndinni til að fara vandlega og góðum höndum um þetta mál og þær tillögur sem því fylgja.