143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

um fundarstjórn.

[13:41]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég tel að þær umræður sem hér hafa orðið um sumarþing hafi orðið mjög til að skýra stöðuna í þinginu. Ég þakka hv. þm. Sigrúnu Magnúsdóttur en ekki síst herra forseta fyrir það hversu skýrt þau töluðu. Hv. þm. Sigrún Magnúsdóttir tók það algjörlega skýrt fram að það væri engin krafa af hennar hálfu að hér yrði sumarþing. Ég tek undir hennar frómu óskir um að menn vinni málefnalega og ljúki málum. Þá væri kannski heppilegra, herra forseti, ef ríkisstjórnin kæmi fram með sín mál.

Hæstv. forseti tók hins vegar algjörlega af skarið um að ekki er fyrirhugað að vera með sumarþing. Það skiptir máli upp á það að greiða fyrir þingstörfum og það er kostur þessa hæstv. forseta sem nú situr að hann er skýr í svörum og hraður til svara. Ég þakka honum fyrir það. Þetta skiptir miklu máli upp á að við getum náð sameiginlegri lendingu um þingstörfin fyrir kosningar.