143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

um fundarstjórn.

[13:54]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé mikilvægt núna — þegar við heyrum í hæstv. ráðherrum tjá sig um að menn hafi verið að halda uppi málþófi og tefja mál — að við upplýsum þá um af hverju við vorum að því, að minnsta kosti þegar við fáum tækifæri til að ávarpa þá í þingsal.

Þegar þingsályktunartillagan er tekin til umræðu eru í henni ærumeiðandi ummæli, eins og hér hefur komið fram, ásakanir um að hv. þingmenn hafi á sínum tíma framið stjórnarskrárbrot. Ef það er ekki tilefni til umræðu veit ég ekki hvað en það tók þó nokkra daga að fá viðkomandi hæstv. ráðherra til að draga það til baka.

Síðan kemur skýrslan og umræðan um hvernig fjalla eigi um hana í nefnd. Hvað tók langan tíma að fá svar við því? Við höfum verið að biðja um svör um einstök atriði, þess vegna erum við hér í ræðustól og það er ekkert óeðlilegt við það. Menn verða bara að hraða þeim svörum meira. Hæstv. forseti hefur ekki einu sinni getað svarað vegna þess að alltaf er verið að krukka í störfum þingsins af aðilum, hæstv. ráðherrum, formönnum stjórnarflokkanna, sem eru ekki einu sinni hér í þingsal, af aðilum sem alla jafna taka ekki þátt í umræðum í þingsal.