143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

um fundarstjórn.

[13:58]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir skýr svör og sömuleiðis hv. þm. Sigrúnu Magnúsdóttur fyrir að útskýra sín orð. Ef ég skildi hana rétt á að gera lítið úr því að þetta sé einhvers konar tilkynning um að hér verði sumarþing. Aftur ítreka ég að ég fer ekkert að grenja yfir því að þurfa að koma hingað á sumarþing. Það er í góðu lagi mín vegna, þannig séð, en ég sé ekki alveg tilganginn.

Hvað varðar það að við komum upp í pontu og tölum um fundarstjórn forseta þá er það vegna þess að vinnubrögðin á þinginu eru þess eðlis að við þurfum stanslaust að kvarta undan þeim. Maður er ekkert hissa á því, þótt ég skilji orð hv. þm. Sigrúnar Magnúsdóttur betur núna, að heyra af einhverjum dagskrártilkynningum í fréttum vegna þess að þannig eru vinnubrögðin hérna. Þannig er komið fram við minni hluta þingsins. Þess vegna erum við að kvarta undan því.