143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

um fundarstjórn.

[14:01]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að lýsa undrun minni á orðum hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem kemur hingað og talar af vandlætingu um að minni hlutinn viðri það hvernig þingstörfin gangi fyrir sig. Þau ganga ekki vel fyrir sig, sérstaklega ekki þegar hæstv. forsætisráðherra mætir aldrei til að svara spurningum, hvorki í sérstakri umræðu né óundirbúnum fyrirspurnatímum.

Síðan er hæstv. sjávarútvegsráðherra fullur vandlætingar og lætur eins og það hafi bara verið einhver sérstakur greiði og sérstök gustuk af hálfu ríkisstjórnarinnar að færa þinginu fréttir í síðustu viku af makríldeilunni. Það hefði bara verið óeðlilegt með öllu, virðulegi forseti, ef ekki hefði verið gerð grein fyrir því í þinginu.

Mér finnst að hæstv. ráðherrar verði (Forseti hringir.) að vanda sig svolítið í því hvernig þeir tala við okkur hér í þingsal.