143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

um fundarstjórn.

[14:03]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég kem hingað upp undir þessum lið vegna þeirra ummæla sem hæstv. ráðherrar létu falla hér. Ég heyrði ekki betur á þeim en að þeir áttuðu sig ekki á stöðunni í þinginu og skildu ekki af hverju stjórnarandstaðan hefur verið að mótmæla undir þessum lið við forseta hvernig þinghaldinu hefur verið fram haldið.

Átta þeir sig ekki á því hvað hér hefur verið á ferðinni? Skilja þeir ekki að stjórnarandstaðan gerir athugasemdir við það þegar miklu og stóru máli er lætt inn í þingið og sett á dagskrá án samráðs við þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar og að forsætisráðherra skuli hvorki mæta til að svara fyrirspurnum né til að taka þátt í sérstökum umræðum?

Virðulegur forseti. Það vantraust sem hefur skapast út af þessari hegðun varð til þess að um mann fór þegar þingflokksformaður Framsóknar talaði um sumarþing. (Forseti hringir.) Það er ástandið sem hér hefur skapast, þ.e. tortryggni (Forseti hringir.) og vantraust vegna (Forseti hringir.) ástandsins hér undanfarna daga. (Gripið fram í.)