143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

þjóðaratkvæðagreiðsla.

[14:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Hér tók til máls fyrrverandi ráðherra sem þurfti að víkja sæti úr ríkisstjórn vegna Evrópusambandsmálsins. Þegar þurfti að koma út úr ríkisstjórn einum ráðherra Vinstri grænna þurfti Samfylkingin að sætta sig við þann fórnarkostnað að hv. þingmaður sem hér talaði fór út úr ríkisstjórninni vegna þess að ríkisstjórn sem ekki var sammála um inngöngu í Evrópusambandið var ekki samstarfshæf. Það þurfti að leysa það mál.

Þess vegna er undarlegt að hlusta á hv. þingmann og marga aðra samflokksmenn hans og fyrrverandi stjórnarliða sem kannast einfaldlega ekkert við að það þurfi að vera pólitískur stuðningur, meiri hluti á þingi og vilji ríkisstjórnar til að ganga í Evrópusambandið og ljúka aðildarviðræðunum (Gripið fram í: Þú lofaðir.) til að einhver framgangur sé í málum.

Hér segir hv. þingmaður að tillagan sem ég hef viðrað og legg í púkkið í utanríkismálanefnd sé óframkvæmanleg og hún sé nýstárleg. Hvernig getur það verið nýstárleg tillaga að leggja til að ákvörðun þingsins sé borin undir þjóðina? Það er ekkert nýstárlegt við það og það er ekkert óframkvæmanlegt. Það er hins vegar mjög nýstárlegt að ætlast til þess af þinginu að setja á dagskrá þjóðaratkvæðagreiðslu um ákvarðanir sem er ekki verið að fjalla um á þinginu. Það er mjög nýstárlegt.

Hv. þingmenn, sem belgja sig hér út í ræðustól og tala um lýðræðisást sína, ættu kannski aðeins að rifja upp sína eigin framgöngu á undanförnum árum þegar þeir gerðu ekkert með vilja 76,3% landsmanna til að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort ætti að efna til aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Nú eða þeir sem ekkert gerðu með vilja 70 þús. manna sem vildu festa flugvöllinn áfram í Reykjavík. Það var einmitt flokkur hv. þingmanns, formanns Samfylkingarinnar, sem hunsaði vilja 70 þús. Íslendinga um að festa og tryggja flugvöllinn í Reykjavík í sessi. Ég vil því biðja menn um að draga úr þessum hástemmdu yfirlýsingum, (Forseti hringir.) líta í eigin barm og spyrja sig: Hvað hafa þeir sjálfir gert (Forseti hringir.) til að efna yfirlýsingar sínar, mjög hástemmdar oft og tíðum, ekki síst þegar þannig viðrar (Forseti hringir.) í pólitíkinni um að þeir vilji virða vilja þjóðarinnar?

Mín hugmynd fer (Forseti hringir.) í utanríkismálanefnd og verður til meðferðar þar.