143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

þjóðaratkvæðagreiðsla.

[14:09]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra getur talað eins og hann vill um alls óskylda hluti og ásakað aðra um belging. Það stendur bara eftir í þessu máli að tillagan sem hann hefur stungið upp á núna, að bera tvo ómögulega kosti undir þjóðina, er ekki tillagan sem hann sjálfur bauð þjóðinni upp á fyrir síðustu kosningar. Það sem meira er, hann getur ekki skotið sér undan því að ekki sé þingvilji á bak við það því að hann lofaði því að fylgja slíku eftir ef fólk mundi kjósa hann. Þar er loforðið um þingviljann. Ef hann vill ekki efna loforðið er það hans vandamál, ekki þjóðarinnar.

Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur nú skotið viðvörunarskoti fyrir stefni sjálfstæðisskútunnar með ummælum sínum í síðustu viku um að ekkert kosningaloforð hafi verið svikið enn — ég legg áherslu á „enn“. Hvenær ætlar hæstv. fjármálaráðherra að tala skýrt í þessu efni? Stendur til að svíkja loforðið eins og hæstv. heilbrigðisráðherra taldi augljóslega að væri í bígerð eða stendur til að efna það? Það er ekki hægt að komast (Forseti hringir.) undan loforðinu um að efna það vegna þess að (Forseti hringir.) hæstv. fjármálaráðherra gaf það. Hann sá fyrir hinn pólitíska ómöguleika en lofaði þjóðinni þessu samt.