143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

þjóðaratkvæðagreiðsla.

[14:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það sem máli skiptir er aðkoma þjóðarinnar að niðurstöðum málsins með einhverjum hætti. Það er það sem skiptir máli. Hv. þingmaður greiddi atkvæði gegn því að þjóðin kæmi að afgreiðslu Icesave-samningsins. Hann greiddi líka atkvæði gegn því í annað skiptið. (Gripið fram í.) Hann greiddi atkvæði gegn því … [Frammíköll í þingsal.]

(Forseti (EKG): Það er einn fundur í þingsalnum og ræður eru fluttar úr ræðustól Alþingis.)

Herra forseti. Hann greiddi atkvæði gegn því líka að þjóðin fengi að koma að því þegar sótt var um aðild. Það hvarflaði ekki að stjórnarflokkunum að spyrja þjóðina að því þegar flokkarnir tóku einir og án aðkomu annarra ákvörðun — um hvað? — um að stöðva viðræðurnar. Það var enginn spurður að því. Það var bara sent bréf. (Gripið fram í.) Þær voru stöðvaðar. Fyrrverandi utanríkisráðherra verður að kannast við eigin verk í þessu. Það var farið til Evrópusambandsins og sagt: Hér þarf að breyta um kúrs, við verðum að stöðva viðræðurnar.

Ég furða mig á því þegar menn koma hingað upp og segja að nú sé einhver brýn nauðsyn að leita til þjóðarinnar með spurningar sem ekki er einu sinni verið að bera upp á þinginu. Ég trúi ekki öðru en menn (Forseti hringir.) treysti utanríkismálanefnd til að vinna með þær hugmyndir sem eru fram komnar, (Forseti hringir.) hinir miklu ástmenn lýðræðisins í landinu (Forseti hringir.) sem aldrei hafa staðið undir merki þegar á hefur reynt á undanförnum árum. (Forseti hringir.) Ég trúi ekki öðru en þeir treysti utanríkismálanefnd til að vinna í þeim anda sem við höfum sett henni fyrir.