143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

menningarsamningur.

[14:24]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Við vissum af þessu með 10% niðurskurð, það svo sem hefur legið fyrir, og eins það að reiknireglan fór eitthvað misjafnt í suma.

Ég get ekki alveg sætt mig við það svar að verið sé að horfa til einhverra breytinga á heildarfyrirkomulagi, samningarnir eru í uppnámi hér og nú. Ríkisstjórnin gat í raun alveg farið að vinna í þessu máli í júní á síðasta ári. Það er rétt að hv. þm. Svandís Svavarsdóttir hefur kallað eftir sérstakri umræðu, ég var eiginlega að vona að hún þyrfti ekki einu sinni fara fram vegna þess að hæstv. ráðherra væri búinn að leysa þetta. Það þekkja þetta margir þingmenn hérna sem eru á landsbyggðinni að það er allt í uppnámi út af þessu og menningarfulltrúar eru að eyða ótrúlegum tíma og peningi í að reyna að ýta á að fá svör frá ráðuneyti um á hverju strandar. Ég er í raun ekki enn komin með svar við því á hverju strandar nákvæmlega. Erum við þá að tala um að þetta verði leyst í næsta mánuði eða er þetta bara rétt handan við hornið eða hvað er í gangi?