143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

frumvarp um aukna siglingavernd og flugöryggismál.

[14:28]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Eins og ég geri ráð fyrir að fyrirspyrjanda og þingheimi sé ljóst er þetta mál til meðferðar hér á þinginu. Ástæðan fyrir því að þessir þættir koma inn í umrætt frumvarp eru kröfur sem eru settar fram af hálfu ríkislögreglustjóra. Síðan hafa auðvitað komið fram, eins og gerist oft í meðferð þingmála, ákveðnar athugasemdir og ábendingar er þetta varðar. Nú er staðan sú að ríkislögreglustjóri og Samgöngustofa eru að safna saman upplýsingum um það hvernig nákvæmlega er staðið að þessum bakgrunnsathugunum í nágrannaríkjum okkar og hvort við erum að ganga lengra en aðrar þjóðir. Það var ekki tilgangurinn. Sé það svo verður það skoðað og ég geri ráð fyrir að þingið muni taka þær athugasemdir saman og tryggja að þetta sé til samræmis við það sem annars staðar þekkist.

Hins vegar er það svo, og það skal áréttað, vegna þess að mikið er talað um að málið lúti að ákveðnu atvinnuöryggi, að þessar bakgrunnsrannsóknir eru einungis gerðar í þeim tilgangi að ákveða hvort viðkomandi einstaklingar geti gengið um tiltekin öryggissvæði í flugstöð án fylgdar. Það lýtur ekki beint að atvinnuöryggi einstaklinga að því sé breytt.

Það skal líka áréttað í þessu samhengi til upplýsingar að sumt af þeim upplýsingum, sem í ljósi gegnsæis og upplýsinga eru gefnar í frumvarpinu og í íslenskum lögum, eru víða reglur sem eru viðhafðar í nágrannalöndum okkar en ekki tilteknar í lögum eða reglugerðum, eru taldar varða þjóðaröryggi þannig að viðkomandi þjóðir telja ekki upp forsendurnar fyrir athugununum þrátt fyrir að þær séu hugsanlega til staðar.

Afstaða ráðuneytisins er alveg skýr og mín sem ráðherra. Við viljum gera þetta með svipuðum hætti og gert er í nágrannalöndunum. Sé í þessu frumvarpi gengið lengra er full ástæða til að skoða það og rýna og menn geta treyst því að það verður tekið til athugunar. Ég er sannfærð um að þingið mun finna á þessu farsæla lausn og tryggja að við séum á sama stað og aðrar þjóðir í þessum samanburði.