143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

frumvarp um aukna siglingavernd og flugöryggismál.

[14:30]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þessi svör um það að við sem erum í nefndinni getum skoðað að það sé sem sagt ekki neitt sem kallar á frekari kröfur hér. Það ætti að geta skapað ró um þessi mál ef vilji er til að hafa þetta eins og er í öðrum löndum, ganga ekki lengra hér. Þá efast ég ekki um að við finnum farsæla lausn í þessu máli.

Annað sem hefur komið fram við skoðun í þessu máli er að vel getur verið að þarna sé verið að rugla saman bakgrunnsskoðunum á þeim sem fara um haftasvæði og þeim sem hafa aðgang að viðkomandi persónuupplýsingum vegna flugs. Það er eitthvað sem við þurfum þá að skoða betur í nefndinni og vonandi er það hluti af því sem útskýrir þessa mismunun. Það er gott að heyra þetta, vonandi skapar það frekari ró um umræðuna í þessu máli sem hefur farið víða.