143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

frumvarp um aukna siglingavernd og flugöryggismál.

[14:31]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að ég held að umræðan um þetta mál hafi kannski ekki alveg verið í samræmi við tilefnið. Það breytir engu um það að fram hafa komið mjög rökstuddar og vel framsettar athugasemdir, af hálfu atvinnuflugmanna til dæmis, um að þetta séu ríkari skorður og ríkari þvinganir en gerðar eru annars staðar og yfir það eigum við auðvitað að fara enda var tilgangur frumvarpsins ekki sá.

Tilgangurinn er engu að síður og verður að vera, eins og ítrekað hefur komið fram hjá ríkislögreglustjóra og hans fólki, að reglurnar um þetta séu skýrar og séu öllum ljósar. Við verðum líka að hafa í huga, eins og ég sagði í svari mínu áðan, að sums staðar eru reglur sem liggja ekki fyrir í lögum eða frumvörpum. Það getur því verið að það séu ríkari reglur en sumir virðast álykta af umræðunni og þess finnist ekki endilega stað í lögum viðkomandi landa.

En það er engin fyrirstaða af hálfu ráðuneytisins eða ráðherra að endurskoða þetta og tryggja að þetta verði í samræmi við það sem gerist annars staðar.