143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

endurupptaka dómsmáls.

[14:34]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka málið upp. Það er hárrétt sem fram kemur í máli hans að hann hefur margsinnis rætt þessi mál við þá sem hér stendur og lýst þeirri skoðun sinni, sem hann fór hér ágætlega yfir, að koma beri til móts við þessa aðila með einhverjum hætti.

Ég vil taka undir það með hv. þingmanni að málið er auðvitað allt hið sorglegasta og það var fagnaðarefni að fyrrverandi innanríkisráðherra, hv. þm. Ögmundur Jónasson, skyldi hafa tekið það upp með þeim hætti sem gert var á síðasta kjörtímabili.

Farið var fram á ákveðna vinnu af hálfu innanríkisráðuneytisins í bréfum frá þessum aðilum til innanríkisráðuneytisins í byrjun október síðastliðnum þar sem farið var fram á annars vegar að skoða hvort lagalegar forsendur væru til að veita slíkan stuðning, hvort heimild væri til þess í lögum, og var óskað eftir áliti á því, og hins vegar hvort ráðuneytið væri tilbúið að koma að einhverjum stuðningi til þess.

Það er ágætt að hv. þingmaður spyrji um þetta mál núna því að ég fékk niðurstöðu frá ráðuneytinu nýlega. Það hefur tekið tíma að fara yfir þetta og ráðuneytisstjórinn í ráðuneyti mínu, innanríkisráðuneytinu, hefur haft fyrir því forustu. Niðurstaðan barst á mitt borð 11. mars síðastliðinn þar sem talið er af hálfu lögfræðinga ráðuneytisins að heimild sé fyrir því, það sé hægt að veita slíkan stuðning, málið sé þannig vaxið að það sé hægt.

Einnig var lagt í þá vinnu að reyna að átta sig á því hvaða kostnaður gæti hlotist af þeirri vinnu, því að auðvitað fer í gang ákveðin lögfræðivinna. Kostnaður við hana er talinn vera um 4 millj. kr. þannig að á borði mínu sem ráðherra núna liggur fyrir sú niðurstaða að heimild er til staðar til þess að veita slíkan stuðning og nú er það verkefnið að finna því stað innan ráðuneytisins. Ég hef áður sagt það við hv. þingmann að ég tel að séu fyrir því lagastoðir, sem nú liggur fyrir að eru til staðar, sé ekki óeðlilegt að koma til móts við þessa aðila og liggur það nú fyrir. En ég get ekki á þessum tímapunkti — enda hefur málið ekki verið tekið fyrir á vettvangi ríkisstjórnar heldur í ráðuneytinu hjá mér, það er ekki komið til ríkisstjórnar. En ég get sagt það sem ég hef áður sagt við hv. þingmann að ég hef mikla samúð með þessum sjónarmiðum og tel að fyrst til staðar eru lagalegar heimildir til þess að gera slíkar undanþágur (Forseti hringir.) sé eðlilegt að skoða það.