143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

endurupptaka dómsmáls.

[14:37]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka miklu frekar hv. þingmanni fyrir áhugann sem hann hefur sýnt á málinu og það sem hann hefur gert til þess að koma þessu máli áfram, sem sannarlega er rétt hjá hv. þingmanni að er stórmál í íslenskri dómsögu og er mikilvægt að fara yfir með þessum hætti.

Það er líka alveg hárrétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að þetta hefur tekið dálítinn tíma í ráðuneytinu, en það er vegna þess að lögfræðingar þar og aðilar sem koma að því máli fyrir hönd ráðherra vildu hafa fyrir því traustan grunn. Hann liggur nú fyrir, fyrir liggur að hægt er að gera þetta með þessum hætti. Jafnframt liggur fyrir kostnaðarmat er þetta varðar, en ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um nákvæmlega hvernig verður tekið á því, en ég get fullvissað hv. þingmann um að ekki munu líða margir dagar þar til sú niðurstaða liggur fyrir.