143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[14:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég get tekið undir það að mjög varlega ber að fara í breytingar á ýmsum gjaldskrám sem ráðherrarnir ráða yfir. Við höfum í ríkisstjórn rætt það og ég hef beint því til ráðherranna sérstaklega, til þeirra sem hafa yfir einstökum ríkisstofnunum að segja, að gjaldskrá þeirra taki mið af þeim áherslum sem ríkisstjórnin hefur kynnt og meðal annars í tengslum við gerð kjarasamninga en eins gjaldskrá af þeim toga sem hv. þingmaður vísar hér til. Þarna er því til að svara að fjárlögin hafa sett stofnununum ákveðinn ramma og í þeim tilvikum sem hér eru nefnd sýnist mér að kostnaðarþátttaka þeirra sem þjónustunnar njóta sé að hækka.

Það verður að fara varlega í slíkar breytingar en fjárlögin setja stofnununum á hinn bóginn ákveðinn ramma sem þær geta ekki brotist út úr. Við getum ekki sótt að stofnunum beggja megin frá, þ.e. annars vegar að veita ekki fjárheimildir og hins vegar að breyta ekki gjaldskránum en ætlast til að þjónustan sé óbreytt.