143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[14:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Að því gefnu að ákveðið hafi verið að ráðstafa 460 millj. kr. til þess að lækka gjaldskrár eða draga úr verðlagsáhrifum forsendna fjárlaga þá velti ég því fyrir mér hvort hæstv. fjármálaráðherra telji þetta vænlega leið til að tryggja að það skili sér til neytenda að smyrja þessu svona þunnt yfir öll gjöld; bensíngjöld, olíugjöld, kílómetragjald, áfengi og tóbak. Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér að það skili sér í t.d. bensínverðinu að lækka almennt bensíngjald um 24 aura eða sérstakt bensíngjald um 40–42 aura? Er það ekki þannig að olíufélögin séu með verðið hlaupandi á mörgum krónum upp og niður jafnvel með einhverra daga millibili eftir því hvernig gengi krónunnar þróast og/eða innkaupsverð er á olíu? Fær hæstv. fjármálaráðherra aldrei SMS í símann sinn þar sem allt í einu er sagt: Tilboð í dag: 12 kr. lækkun á bensínlítrann? Það þarf ekki einu sinni handboltaleiki til. Oftast koma önnur tilboð eftir korter frá hinum félögunum því að þeir virðast einhvern veginn vita hver af öðrum í þessum efnum. Maður hefur stundum varla frið fyrir þessu fyrir hádegi á föstudögum þegar verið er að koma með tilboðin. Það sem ég undrast er að hæstv. ráðherra skuli ekki frekar leggja til skýra og einhverja sýnilega lækkun á einhverjum fáum tilteknum flokkum þannig að líklegt sé að hægt sé að fylgja því eftir að það fari út í verðlagið, að það komi raunverulega fram. Hvernig í ósköpunum á að greina það miðað við það t.d. hvernig þetta þróast á bensínmarkaðnum að neytendur njóti góðs af þessu tekjutapi ríkisins? Ég sé það ekki miðað við það hvernig þetta birtist manni sem viðskiptavini og fylgjast með þessu frá þeirri hlið.

Það kom réttilega fram að þessi 0,08% verðlagsáhrif verða þá og því aðeins að veruleika að allt skili sér í lækkuðu verði til neytandans umfram það sem ella hefði orðið. Ég undrast þetta mjög og vil spyrja hæstv. ráðherra: Trúir hæstv. fjármálaráðherra því virkilega að það sé vænleg aðferð í þeim efnum?