143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[14:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil vel ef menn horfa á lækkunina út frá lítraverði og velta fyrir sér hvað lítraverðið mun lækka nákvæmlega miðað við þessa breytingu, að menn eigi erfitt með að sjá nákvæmlega hver áhrifin verða.

Ef við horfum á þetta í aðeins stærra samhengi og áttum okkur á að það er ákveðið margfeldi af sköttum og seldum lítrum þarna að verkum, sjáum við að þetta dregur úr þeim hluta eldsneytissölunnar sem skila þarf til ríkisins, um nokkur hundruð milljónir, sem hlýtur að skapa svigrúm og á að gera það þar sem samkeppni ríkir til þess að halda verðinu lægra. Það getur gerst ýmist með þeim hætti að verðið er beinlínis lækkað samstundis eða að tækifæri eða tilefni til þess að hækka verðið vegna breytinga á heimsmarkaðsverði eru látin liggja þar sem svigrúmið í opinberu gjöldunum hefur gefið tilefni til þess.

Í raun og veru er ekkert annað svar til í þessu efni en að það verður að byggja á því að samkeppnin í landinu, eins og hún birtist t.d. í SMS-sendingum til hv. þingmanns, tryggi að neytendur leiti þangað með kaup á þessum vörum þar sem verðið er hagstæðast. Ég fæ reyndar ekki þessar SMS-sendingar, en neytendur fylgjast með og það gera líka Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands. Ég hef margoft tekið það upp á fundum í aðdraganda kjarasamninga með Samtökum atvinnulífsins og spurt hvað þeir geti gert til þess að tryggja að hvorki verði launaskrið né verðhækkanir á fyrirtækjum. Þeir hafa svarað því til að það sé reglulegt umræðuefni á vettvangi þeirra og þeir hafa (Forseti hringir.) heitið því að ganga eftir því að öll tilefni til lækkana muni (Forseti hringir.) ná fram.