143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[15:05]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það verður að byrja á því að inna hæstv. fjármálaráðherra eftir því hvort hann telji það rétta forgangsröðun að hækka gjöld á öndunarvélum en lækka gjöld á tóbaki.

Um eldsneytisgjöldin verður þess ekki séð stað að það hafi verið skipt um ríkisstjórn í landinu vegna þess að þessi ríkisstjórn hækkar eldsneytisgjöldin með alveg sama hætti og áður var gert og heldur því líka fram að það muni leiða til tekjuaukningar eða tekjutaps í réttu hlutfalli miðað við þær tillögur. Þess vegna verð ég að ítreka þá spurningu: Hefur fjármálaráðherra ekki lengur sömu skoðun og hann hafði á síðasta kjörtímabili að lækkun á eldsneytisgjöldum muni ekki leiða til tekjutaps fyrir ríkissjóð?

Þegar hæstv. fjármálaráðherra vekur sérstaka athygli á því að bílar séu alltaf að verða sparneytnari og menn ættu að skoða þróunina tíu ár fram í tímann, er hann þá að vekja athygli á því að þessi tekjustofn muni óhjákvæmilega minnka hjá ríkissjóði og það sé ekki nema eðlilegt í ljósi þróunarinnar eða er þetta einhvers konar fyrirboði um að ástæða sé til að auka álögurnar (Forseti hringir.) vegna þess að bílarnir séu farnir að eyða minna?