143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[15:33]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni í því að í sjálfu sér ekki skynsamlegt að smyrja lækkunum með svo almennum hætti, enda auðvelt að reikna út að verðlagsáhrif náist með því, en auðvitað er það líka ýmsum vafa undirorpið hvort þau í reynd náist þegar á hólminn er komið. Það er líka alveg ljóst að hægt er að hugsa sér tilfærslu innan kerfisins.

Eins og ég rakti áðan stenst ekki sú staðhæfing hæstv. fjármálaráðherra varðandi tillögurnar sem hér er verið að leggja fram um þessar lækkanir að rökbundin nauðsyn sé til að það séu aðeins þær sem lækkunin taki til vegna þess að annað sé utan marka fjárlaga. Það sem ég rakti áðan um hækkun í heilsugæslunni er rakið í fjárlagafrumvarpi og það er forsenduþáttur í fjárlagafrumvarpi. Það á þess vegna að vera hægt að flytja til með einhverjum hætti þannig að fólk sitji ekki eftir með svo gríðarlegar gjaldskrárhækkanir umfram verðlag.

Að því er varðar hið almenna sjónarmið er ég sammála því almennt séð að engin ástæða sé til þess að ríkið láti gjaldskrár hanga óbreyttar árum saman, en það má ekki heldur gleyma því að við búum í verðbólgusamfélagi í höftum. Það er algjörlega ljóst að ríkið hefur verðmyndandi áhrif og væntingar ríkisins um verðbólguþróun geta og hafa í fortíðinni haft áhrif til þess að kynda undir verðbólguvæntingum í landinu. Ef ríkisstjórnin gengur ekki á undan með góðu fordæmi er hætt við að verstu verðbólguspár rætist og jafnvel verri en það.

Þess vegna taldi ég fulla ástæðu til þess í haust við þær aðstæður sem þá voru að menn mundu sameinast um það til þess að reyna að leggja grunn að heilbrigðum kjarasamningum og koma okkur út úr hættu á vítahring verðlagshækkana, launahækkana og þrýstings á gengi að ríkið gengi á undan (Forseti hringir.) með góðu fordæmi, sem þessi ríkisstjórn hafði því miður ekki hugrekki til að gera.