143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[15:39]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það væri freistandi að spinna þennan þráð aðeins áfram, m.a. vegna þess að í morgun kom út skýrsla frá OECD, mikil og þykk, ég er ekki búinn að ná að lesa hana alla, aðeins byrjaður að kíkja í hana, og þar er meðal annars birt mynd sem gladdi mig mjög, mynd yfir jöfnuð í OECD-ríkjunum mældan á svonefndan Gini-kvarða og Ísland hefur endurheimt sæti sitt, 1. sæti á listanum, með lægstan Gini-stuðul allra OECD-ríkja, 0,24. Það er veruleg breyting frá því sem sjálfstæðismenn og framsóknarmenn skildu við á sínum tíma, árið 2007, þá hafði Ísland siglt upp þennan lista ár eftir ár og ójöfnuður vaxið mjög mikið. En skattkerfisbreytingarnar og áhersla á jöfnuð undanfarin fjögur, fimm ár hafa skilað Íslandi aftur heim í þessum efnum. Við trónum núna á toppnum og erum komin upp fyrir bæði Danmörku og Finnland sem eru, ef ég man rétt, í 3. og 4. sæti. Merkilegt nokk er Slóvenía það land sem fylgir fast á hæla Íslands og er í 2. sæti.

Þetta hefur ekki gerst af sjálfu sér, það kemur við sögu hvernig við öflum tekna og hvernig við ráðstöfum opinberu fé. Að hve miklu leyti eru tekjutengdir skattar, beinir skattar, burðarás í tekjuöflun hins opinbera og að hve miklu leyti nefskattar sem taka ekkert tillit til tekna og jafna ekkert aðstöðu fólks?

Ég verð að segja alveg eins og er að þetta frumvarp olli mér miklum vonbrigðum þegar það kom. Ég hafði spurt aðila vinnumarkaðarins, bæði í prívatsamtölum og eins þegar við kölluðum þá til okkar í efnahags- og viðskiptanefnd, hvort þeir hefðu engar skoðanir haft á því hvernig ríkið ráðstafaði þeim fjármunum sem það ætlaði að leggja í púkkið. Svo var ekki. Satt best að segja, ef ég veit rétt, kynnti ríkisstjórnin aðilum vinnumarkaðarins þetta 21. desember eingöngu sem talnaleg markmið og engar útfærslur fylgdu með. Kannski er það skýringin. Ég hef litla trú á því að aðilar vinnumarkaðarins og sérstaklega kannski verkalýðshreyfingin hefðu orðið dús við ráðstöfun þessa tæpa hálfa milljarðs króna.

Ég get nefnt einfalt dæmi ef hæstv. fjármálaráðherra má vera að því að hlusta. Af hverju var ekki afslátturinn í eldsneytinu tekinn á kílómetragjaldið? Það hefði komið sér mjög vel og lækkað flutningskostnað í landinu og atvinnutengd útgjöld í miklu ríkara mæli en hið almenna og sérstaka bensíngjald. Við höfum áður rætt hér hvers vegna í ósköpunum ekki er frekar borið niður í einhverjum nauðsynjaútgjöldum heimilanna sem menn verða að reiða af hendi, hvort sem þeim líkar betur eða verr og hvernig sem aðstæðurnar eru þegar þannig aðstæður kalla að. Ég get nefnt komugjöldin á heilsugæslustöðvarnar og tiltekna þætti lyfjakostnaðar þar sem ákveðnir hópar verða fyrir býsna þungri greiðslu. Ég nefni sykursjúka sem því miður kemur í ljós að verða fyrir verulega íþyngjandi áhrifum af breytingunum síðasta vor. Þótt þær hafi margt til síns ágætis koma upp hlutir af því tagi sem mér finnst að ætti að skoða. Sykursjúkir lenda í verulegum viðbótarkostnaði. Auðvitað gilda þökin þar varðandi lyfjakostnaðinn sjálfan hjá þeim eins og öðrum, en þetta er líka hópur sem þarf að nota mikið af dýrum aukabúnaði sem fylgir sjúkdómnum. Við hefðum alveg getað ráðstafað fjármunum í verkefni af þessu tagi.

Svo vil ég nefna í öðru lagi lækkunina á raforkuskattinn, úr 0,13 kr., sem sagt 13 aurum, ég held að ekki hafi verið rétt farið með hjá hv. þm. Helga Hjörvar, þetta eru enn lægri tölur — eru þetta ekki 13 aurar sem fara niður í 12,9 aura? Mér finnst svo ótrúlegt að menn skuli leggja lykkju á leið sína til að lækka þennan skatt um á að giska 1% — og hverjir greiða hann? 75–80% af þessum skatti eru greidd af stóriðjunni. Hann er ekkert neytendamál. Það er ekki verðlagsáhrifaspursmál fyrir almenning í landinu nema að því litla leyti sem hann er notandi að raforkunni. Ég veit ekki hverju þetta skilar, þetta er örlítið tekjutap fyrir ríkið og það er ekki það sem hér skiptir máli heldur frekar prinsippið.

Ég spyr í þriðja lagi út í áformin um að mæta síðan þessum hækkunum með einhverjum æfingum sem tengjast efnahagsreikningi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Hér er það boðað að til viðbótar því að skoða hugsanlega útfærsluna á álagningu tóbaksgjalds sem ekki liggur þó fyrir hvernig yrði, samanber framsöguræðu ráðherra, verði tekjutapinu mætt með því að sækja meiri arð til ÁTVR. Bíddu nú við, hvernig myndast arðurinn hjá ÁTVR? Það er ekki áfengisgjaldið, því er skilað beint í ríkissjóð. Arðurinn myndast af álagningu ÁTVR. Þetta er það sem eftir stendur af álagningu ÁTVR þegar búið er að dekka kostnað við rekstur fyrirtækisins, greiða flutningskostnað af vörunni og stofnkostnað, fjárfestingu í nýjum búðum o.s.frv. Með öðrum orðum borga neytendur arðinn að lokum í gegnum álagningu ÁTVR. Það hefur verið afgangur undanfarin nokkur ár sem hefur dugað nokkurn veginn til þess að ÁTVR hefur getað greitt um 1 milljarð kr. í arð án þess að ganga verulega á eigið fé. Ég þekki þetta nokkuð vel, þannig var það þau fimm ár sem ég vakti yfir þessu að það var alveg í það tæpasta að fjárhagur fyrirtækisins réði við þessa árlegu 1 milljarðs arðgreiðslu.

Mig grunar að 1 milljarður sé nú þegar í arðgreiðslu frá ÁTVR á árinu 2014. Á að bæta 460 milljónum við? Hvað þýðir það? Það þýðir væntanlega að ÁTVR gengur á eigið fé og/eða verður að brúa bilið og mæta svo þessum útgjöldum með aukinni eða hærri álagningu en ella þyrfti á næstu árum. Eru þá neytendur betur settir? Nei, með því væri kannski verið að færa obbann af þessum útgjöldum yfir á nákvæmlega þá sem greiða áfengisgjald og álagningu vegna áfengis.

Mér finnst hæstv. ráðherra verða að skýra þetta. Liggur það fyrir að ÁTVR geti skilað þessum viðbótararði án þess að ganga á eigið fé sitt eða hvaða áhrif hefur þetta á fyrirtækið inn í framtíðina?

Síðan vil ég nefna útfærsluna á breytingunum á vörugjöldum af ökutækjum, eldsneyti o.fl., þ.e. lög nr. 29/1993. Ég fæ ekki betur séð en að þeir sem um þetta hafa vélað hafi útbúið þetta þannig, samanber 4. og 5. gr. frumvarpsins, að almenna vörugjaldið af bensíni eigi að lækka um 24 aura, hver lítri úr 25,20 kr. í 24,96 kr. Sérstakt vörugjald af blýlausu bensíni á hins vegar að lækka um 40 aura, og 42 aura af öðru bensíni en blýlausu. Af hverju skyldi þetta vera svona? Getur verið að þarna hafi höfundurinn séð sér leik á borði að láta obbann af tekjutapinu koma niður á Vegagerðinni? Það er nefnilega það sem gerist. Hann hlífir ríkissjóði að mestu leyti við tekjutapi en skerðir framkvæmdafé Vegagerðarinnar. Af hverju er þetta, herra forseti? Jú, vegna þess að í lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., stendur skýrt í 15. gr. að svonefnt sérstakt vörugjald á bensín, bensíngjald, renni óskipt til framkvæmda í vegamálum. Var þetta með samþykki og stuðningi innanríkisráðherra? Ég hélt að Vegagerðin væri ekki aflögufær. Við þekkjum öll hvernig ástandið hefur verið í vetrarþjónustunni og hversu hart keyrð Vegagerðin er. Hún hefur ekki getað framfylgt gildandi samgönguáætlun. Framkvæmdir innan samgönguáætlunar hafa legið á borðum Vegagerðarinnar og verið auglýstar í framkvæmdaáætlunum í á annað ár en ekki boðnar út, sem er brot á þeim áætlunum, umboðslaust, að mismuna verkefnum. Vegagerðin ver sig með því að hún geti ekki boðið út verk og tekið áhættuna af sjóðþurrð. Það verður að vera hægt að halda sjoppunni gangandi og maður hefur svo sem skilning á því. Þess vegna kemur það mjög á óvart ef þetta hefur verið lævíslega útbúið þannig að obbinn af tekjutapinu vegna breytinga á vörugjöldum af bensíni lenti á vegasjóði en ekki ríkissjóði. Ég sé engin sérstök rök fyrir því.

Af hverju er farið inn í markaðan tekjustofn Vegagerðarinnar af tvöföldum þunga á við almenna bensíngjaldið? Mér finnst að hæstv. ráðherra verði að gefa okkur einhverjar skýringar á því og ég vildi gjarnan vita hvort hæstv. innanríkisráðherra hefur áttað sig á þessu og samþykkt að útfæra þetta svona.

Hið sama má segja um kolefnisgjaldið. Af hverju er verið að krukka í það? Er hæstv. ríkisstjórn að byrja að bakka út úr því að gera skattkerfið grænna? Það mætti ætla það af því að það vegur ekki þungt í þessu. Ekki er kolefnisgjaldið bara borgað af launafólki. Það leggst á allt jarðefnaeldsneyti sem notað er í landinu. Stórgreiðandi þar er sjávarútvegurinn. Aha, já, þeir hafa kannski munað eftir vinum sínum þar líka og ákveðið að lækka kolefnisgjaldið, ekki bara almenna bensíngjaldið sem almenningur að breyttu breytanda notar þó hlutfallslega mest til reksturs á heimilisbílnum miðað við þessa vöruflokka.

Það má líka velta þessu fyrir sér í tengslum við almennar áherslur ríkisstjórnarinnar í skattamálum. Hér vinnst ekki tími til að ræða það en ég verð að segja alveg eins og er að ég hef allverulegar áhyggjur af því að nú sé búið að stilla kompásinn upp á nýtt. Þótt það sé ekki í stóru í hverju tilviki sér þess stað í áherslum Sjálfstæðisflokksins sem eru meðal annars að fletja skattkerfið út aftur, draga úr tekjujöfnunargildi þess þannig að við hröpum niður Gini-listann aftur, töpum 1. sætinu kannski á næsta ári, að draga úr áherslu á að gera skattkerfið grænna og láta þá sem menga borga. Vissulega var gert stórátak í þeim efnum á síðasta kjörtímabili og veitti ekki af því að skattkerfið íslenska var orðið eins og forneskja eftir 18 ára valdatíma íhaldsins. Það var alveg kostulegt að sjá það, það var eins og umhverfisvitundin hefði ekki numið land á Íslandi þau ár sem Sjálfstæðisflokkurinn stjórnaði þessum málum. Það vottaði ekki fyrir grænni hugsun í skattkerfinu á Íslandi árið 2008, mengunarsköttum, að þeir sem menguðu ættu að borga, að þeim væri ívilnað sem keyptu inn umhverfisvæna bíla eða annað í þeim dúr. Það var tæpast á blaði.

Kolefnisgjaldið, það að gera koltvíoxíðlosun að andlagi bifreiðagjalda o.s.frv., var liður í þeirri vegferð að gera skattkerfið grænna en það má velta því fyrir sér hvort ríkisstjórnin sé lögð af stað í burtu frá því aftur.

Eins og var tilefni orðaskipta okkar hæstv. ráðherra í andsvari finnst mér eiginlega samt allra aumlegast við þetta mál það verkleysi að taka bara þessa skatta eða þessi gjöld og smyrja þeim í nokkrum aurum út yfir allt saman, kílómetragjöld, almenn og sérstök bensíngjöld, áfengisgjöld og tóbaksgjöld og meira að segja tína raforkuskattinn inn í þetta. Það leiðir til þess að breytingin er svo hverfandi lítil í hverju tilviki að það er ómögulegt að fylgjast með því að þetta skili sér raunverulega til neytenda.

Það er sterk umræða uppi núna um að olíufélögin hafi sætt færis og aukið álagningu sína þegar hvort tveggja gerðist á sama tíma að það dró heldur úr verðinu á bensíni á alþjóðamarkaði og gengi krónunnar styrktist. Samkvæmt öllum venjum ætti að hafa skapast alveg verulegt svigrúm til umtalsverðra lækkana á bensíni og olíu. Jú, verðið hefur lækkað eitthvað en það er sterkur orðrómur uppi um að þeir hafi sætt færis og bætt í álagninguna. Hvernig í ósköpunum eigum við að fylgjast með því að 24 aurar hér og 40 aurar þar hverfi ekki inn í hítina hjá olíufélögunum? Það væri gaman að heyra málflutning og rökstuðning stjórnarliða fyrir því. Ætla þeir að vera á bensínstöðvunum og fylgjast með því dag frá degi að þetta komi strax til framkvæmda?

Að lokum vil ég benda hæstv. ráðherra á að frumvarpið þarfnast einhverra lagfæringa því að því er ætlað að taka gildi 1. mars. Það verður varla úr þessu, kannski ekki einu sinni 1. apríl. Ef tveir mánuðir í viðbót tapast út úr áformaðri lækkun (Forseti hringir.) mun minna skila sér inn í verðlagslækkunina en 460 milljónir, ekki satt? Ég spyr hæstv. ráðherra ef hann skyldi koma í andsvar: (Forseti hringir.) Stendur til að endurreikna þessar tölur þannig að ígildi fjárhæðarinnar skili sér innan ársins 2014?