143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[15:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst mönnum hafa tekist að gera óskaplega einfalt mál mjög flókið. Menn spyrja sig hvers vegna eru bara örfáir aurar hér og nokkrar krónur þar? Þetta er svo einfalt að við hækkuðum öll þessi gjöld um 3%, nú drögum við 1% af hækkuninni til baka. Þegar við hækkuðum um 3% vorum við að hækka um nokkra aura hér og nokkrar krónur þar á öllum þessum gjaldasviðum vegna þess að við ætluðum að færa þessi krónutölugjöld og þessa krónutöluskatta upp um nákvæmlega 3%. Þá þarf að tiltaka það í krónum og aurum hvað það þýðir fyrir einstök gjöld. Nú tökum við 1% til baka, þá þarf að tilgreina það í krónum og aurum. Það er ekkert hægt að lesa neitt annað út úr því heldur en bara nákvæmlega þetta. Þetta segir í greinargerðinni: „Við erum að draga úr hækkuninni.“

Varðandi ÁTVR. Já, gengið hefur verið úr skugga um að ÁTVR telur að svigrúm sé til að auka arðgreiðslur á þessu ári. Ég hefði kannski frekar búist við gagnrýni á þann veg að þetta væri einskiptisaðgerð sem mundi ekki duga til að mæta lækkuninni nema bara árið 2014, en mér fannst mikilvægt að geta þessa vegna þess að þetta eyðir um það bil áhrifunum á heildarafkomu ríkisins.

Varðandi vegamálin sem hér hefur verið komið aðeins inn á þá breytir þetta í sjálfu sér engu um fjárheimildir Vegagerðarinnar á árinu. Staða Vegagerðarinnar gagnvart ríkissjóði verður ekki fyrir neinum áföllum af þessum breytingum. Það sem gerist er það að þau gjöld sem sérmerkt eru Vegagerðinni hækka á þessu ári um 2% en ekki um 3%, en Vegagerðin er búin að fá framkvæmdafé tugi milljarða fram úr því sem þessir sérmerktu tekjustofnar gefa Vegagerðinni. Ætli ríkissjóður ætti ekki, ef ætti að gera það mál allt saman upp, hátt í 20 milljarða (Forseti hringir.) kröfu á Vegagerðina. Hún er skökk í þessum fjárhagslegu samskiptum og hefur fengið framlög langt umfram það sem sértekjum (Forseti hringir.) er ætlað að skapa stofnunum.