143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[16:01]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það mun rétt vera og rétt skal vera rétt. Vissulega voru líka, ef ég man rétt, fyrstu afslættirnir komnir varðandi vörugjöld, tolla og aðflutningsgjöld, af umhverfisvænum bílum, rafbílum og því. Ég hygg að það hafi verið komið í tíð Sjálfstæðisflokksins og veitir nú ekki af að tíunda þó það sem hægt er að kalla grænt og hægt er að tengja við þann flokk. Ég skal með ánægju hjálpa til við það.

Varðandi vegamálin. Já, við getum auðvitað rætt um það fram og til baka. Ég tel að ef haft væri fyrir því að fara í þingtíðindin og skoða hvernig þetta hefur verið formúlerað hér á umliðnum árum, þegar menn tóku ákvarðanir um að spýta í í samgöngumálum, hafi engin umræða verið uppi um það að þetta væri tekið að einhvers konar láni af mörkuðum tekjum Vegagerðarinnar inn í framtíðina. Þvert á móti hafi menn talið sig vitandi vits vera að bæta ofan á hina mörkuðu tekjustofna viðbótarfjármunum (Forseti hringir.) úr ríkissjóði af almennum skatttekjum. Þetta þarf auðvitað að fá á hreint.

Mér kom rökstuðningurinn í fjárlagafrumvarpinu í haust mjög á óvart ef ég á að segja alveg eins og er. Ég (Forseti hringir.) kannaðist ekki við þá umræðu frá mínum dögum í fjármálaráðuneytinu að þarna ættum við inni skuld hjá vegasjóði.