143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[16:02]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig minnir að við höfum átt orðastað varðandi hallalaus fjárlög hér fyrir áramót og ég man ekki betur en að hv. þingmaður hafi verið mér sammála mér um að það væri gott að stefna að því markmiði að hafa hallalaus fjárlög. Þess vegna finnst mér svolítið einkennilegt að heyra hversu óánægður hv. þingmaður er með þetta frumvarp í ljósi þess að hér færum við til baka um 1 prósentustig þær hækkanir sem urðu á þeim gjöldum sem hér um ræðir, en hv. þingmaður telur það vera smáræði þar sem lækkunin á hverju gjaldi í aurum talið sé ekki nægilega mikil. Engu að síður telur hv. þingmaður 460 millj. kr. vera mikið fé og ég er sammála því, þannig að við verðum að tala um þetta í einhverju samhengi. Telur hv. þingmaður þetta vera miklar eða litlar lækkanir? Ég áttaði mig ekki alveg á því í málflutningi hv. þingmanns.

Síðan langar mig líka að fá aðeins fram svör hjá þingmanninum varðandi mörkuðu tekjurnar, af því að verið hefur mikil umræða í fjárlaganefnd um hversu brýnt það sé að taka það kerfi okkar allt saman varðandi markaðar tekjur í heild sinni til endurskoðunar og breyta því þannig að þær stofnanir sem við rekum fyrir almannafé sitji við sama borð þegar kemur að fjárveitingum frá Alþingi. Þá hefur þingið meira um það að segja en það gerir í dag varðandi hversu mikil framlög hver stofnun fær til þess að spila úr. Ég beini þessum tveimur spurningum til hv. þingmanns til þess að skýra aðeins fyrir mér hver afstaða hans er til málsins.