143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[16:07]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Í mínum huga er það alveg ljóst að olíu- og eldsneytisgjöldin eru nokkuð sem snertir flestöll heimili í landinu þannig að ég tel að þessar breytingar skipti máli fyrir venjulegt fólk. Það er alla vega skoðun mín þannig að ég er ekki sammála því að þetta séu gjöld sem ekki eru hluti af daglegu neyslumynstri venjulegra fjölskyldna í landinu. Ég held því að við verðum þá bara að vera sammála um að vera ósammála um það atriði. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að minna mig á ræðuna um mörkuðu tekjurnar. Það hefur átt sér stað heilmikil umræða í nefndinni og hér eftir sem hingað til mun fara fram umræða í nefndinni um mörkuðu tekjurnar þangað til við komumst að niðurstöðu. Ég er alla vega á þeirri skoðun að þar þurfi að breyta hlutunum, en ég treysti því að fjárlaganefnd fari vel yfir það mál og við munum ræða það síðar hér í þinginu.