143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[16:09]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það vekur ákveðnar áhyggjur ef ekki er ætlunin að mæta þessum þætti í tekjunum öðruvísi en með því að ganga á eigið fé Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Þingmaðurinn nefndi það og ég vil inna hann eftir því, vegna þess að hann er fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra, hvort honum finnist gæta tilhneigingar til þess nú á nýju kjörtímabili að forðast að takast á við rekstrarvandann og ganga þess í stað á eigið fé ríkisstofnana eins og Seðlabankans hér áður og ÁTVR núna og hugsanlega fleiri.

Svo vildi ég spyrja hv. þingmann hvort honum hefði aldrei dottið í hug að koma hingað inn með hækkanir á gjaldskrám um rétt rúmlega verðbólguna og koma svo á hvítum fáki skömmu seinna með frumvarp um að lækka þessar sömu hækkanir um 1% og telja sig þá vera að færa almenningi einhverjar sérstakar búbætur. Þetta er nokkuð mikill hringlandaháttur að mínu viti. Ég er sammála þingmanninum um að það er verið að smyrja þessum lækkunum á hækkununum býsna þunnt.

Þingmaðurinn nefndi að það væri kannski ráð að nýta það sem er verið að gefa eftir í bifreiðagjöldunum í kílómetragjöldunum svo að það nýttist best til að lækka flutningskostnað og það sem snýr að brýnum verkefnum. Hefði þingmaðurinn lagt svipaða áherslu á hinar 190 milljónirnar? Vildi hann sjá þær fara í það að koma í veg fyrir hækkun á komugjöldum á heilsugæslunni eða er eitthvert tiltekið málefni sem hann teldi þeim fjármunum best varið í ?