143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[16:14]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin.

Kemur það ekki hv. þingmanni á óvart eftir feril hans í fjármálaráðuneytinu að sjá hér í ræðustólnum hæstv. núverandi fjármálaráðherra Bjarna Benediktsson leggja til hækkanir á bensíngjöldum? Man hv. þingmaður það ekki eins og ég að hæstv. Bjarni Benediktsson, þáverandi þingmaður, flutti á síðasta kjörtímabili þingmál um að lækka ætti gjaldtöku af eldsneyti og það mundi ekki bitna neitt á tekjum ríkissjóðs af því að fólk mundi kaupa svo miklu fleiri lítra af olíu og bensíni?

Heldur hv. þingmaður að Sjálfstæðisflokkurinn sé genginn af trúnni á það að lægri gjöld þýði meiri tekjur eða heldur hann að þetta hafi kannski bara verið áróðursbragð af hálfu Sjálfstæðisflokksins sem aldrei var ætlunin að efna eftir kosningar frekar en ýmis önnur afdráttarlaus loforð þess flokks í aðdraganda síðustu alþingiskosninga?