143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[16:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem eingöngu upp til að vekja athygli á því að í því svari sem hv. þingmaður vísar ótt og títt til frá heilbrigðisráðherra við fyrirspurn um greiðsluþátttöku kemur skýrt fram að þær breytingar sem gerðar voru á reglugerðinni og tóku gildi 1. janúar hafa ýmist í för með sér lækkun á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga á ákveðnum vöruflokkum, afnám á greiðsluþátttöku tiltekinna vöruflokka eða þrengingu á reglum um úthlutun ákveðinna hjálpartækja. Svo kemur fram í svarinu að sjúkratryggingar áformi að auka enn frekar endurnýtingu hjálpartækja.

Þegar valin er sú leið að benda á prósentuhækkun í einstaka tilvikum er það gjarnan svo að þegar maður skoðar krónutöluhækkanirnar eru þær ekki eins svakalegar og prósentutalan gefur tilefni til að ætla. Hér hafa margir þingmenn vísað í styrki vegna hjálpartækja og sérstaklega öndunarvélar sem augljóslega eru gríðarlega viðkvæmur málaflokkur, það leiðir af eðli máls, en þar er hækkunin, sem hér hefur oft verið minnst á, upp á 190 kr. á mánuði. Það er þó ekki hærri krónutala en svo. Því hlýtur maður að þurfa að halda til haga og eins hinu að það er eins og í þessari umræðu velji menn að sleppa öllu því sem er til hagsbóta fyrir sjúklinga, öllum þeim dæmum þar sem þátttakan lækkar. Ég nefni til dæmis þegar aukin þátttaka er hjá þeim sem eru langveikir o.s.frv. Það verður að lesa svar heilbrigðisráðherrans í heild sinni til að fá skýra mynd (Forseti hringir.) og það er ekki verið að auka tekjur ríkisins. Það er verið að tryggja ákveðna þjónustu sem stofnanirnar geta innheimt fyrir.