143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[16:36]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar og yfirferð. Það vakna vissulega ýmsar spurningar um forgangsröðun ríkisstjórnarinnar við að koma til móts við aðila vinnumarkaðarins í kjarasamningsgerð. Ég talaði fyrir því í fjárlagaumræðunni að ríkisstjórnin mundi gera hvað hún gæti til að mæta aðilum vinnumarkaðarins í þeim kjarasamningum sem stóðu yfir en mér finnst ekki vera farið rétt í þetta, ekki á þann hátt sem kemur fram hér, að vera að draga fram lækkanir á ýmsum þáttum þegar miklu nær hefði verið að fara öflugar inn gagnvart því fólki í samfélaginu sem þarf helst á því að halda.

Mig langar að heyra frá hv. þingmanni hvort hún telji að hægt hefði verið að draga saman áherslur í þessari lækkun gjalda sem hefði þá nýst því fólki sem veikast stendur í samfélaginu miklu betur í stað þess að smyrja þetta heilt yfir línuna gagnvart öllum, líka því fólki sem þarf ekkert á því að halda að fá einhverjar lækkanir, hvorki á tóbaki né áfengi, sem og stóriðjunni en það að lækka á hana raforkuskatt er frekar hlægilegt í stóru samhengi og var ekki kallað eftir því af aðilum vinnumarkaðarins. Hvernig hefði hv. þingmaður framkvæmt þetta sem fjármálaráðherra?