143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[16:43]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú geri ég ráð fyrir því að þegar frumvarpið fer til nefndar verði þetta greint nánar niður en við fáum að sjá í frumvarpinu, þá verði farið yfir þetta allt saman, hvað þetta þýði bæði fyrir Vegagerðina og svo fyrir ríkissjóð. Þegar gefin eru fyrirheit um að það eigi að vera með öðruvísi álagningar og gera breytingar, þegar við þurfum að finna út úr því hvernig í ósköpunum það á ekki að koma niður á ríkissjóði, þá þurfum við að fá nánari útskýringar á því. Þetta er svolítið óljóst í þessu frumvarpi.

Ég vil bara almennt segja að það að auka jöfnuð í samfélaginu er eftirsóknarvert. Það hefur verið sýnt fram á það, í alls konar vísindalegum rannsóknum, að í þeim ríkjum þar sem jöfnuður ríkir eru íbúarnir ánægðari, þeir eru meira að segja heilbrigðari og það er minna um glæpi. Það er eftirsóknarvert að ná jöfnuði í samfélaginu. Það er meiri sátt og það er samfélag sem ætti að stefna að.

Ég hef áhyggjur af því að þessi ríkisstjórn sé að fara í þveröfuga átt. Þegar hæstv. ríkisstjórn leggur sig fram um að hækka gjaldskrár jafn mikið og raun ber vitni á þá sem þurfa á hjálpartækjum, sjúkraþjálfun, talþjálfun og iðjuþjálfun að halda en hikar ekki við að lækka gjöld svo að milljörðum skiptir á atvinnugrein sem býr við sérdeilis góðar aðstæður og gjöld á erlenda ferðamenn sem fjölgar hér langt umfram það sem við ráðum við. Ég kann ekki við þessa forgangsröðun og ég vona að hv. efnahags- og viðskiptanefnd taki þetta vel til athugunar.