143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[16:45]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um gjaldskrárlækkanir, sem er eitt af framlögum ríkisstjórnarinnar til kjarasamninga sem voru reyndar felldir í upphafi árs, eftir samþykkt fjárlaga, en eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu stendur ríkisstjórnin við gefin loforð í þetta skiptið. Hér er verið að lækka bensíngjald, olíugjald, kílómetragjald og gjald af áfengi og tóbaki. Einnig er verið að lækka umhverfis- og auðlindaskatt, sem er sem sagt raforkuskattur og kolefnisgjald af eldsneyti.

Þessir gjaldflokkar voru allir hækkaðir um 3% í fjárlagafrumvarpinu en eru nú lækkaðir í 2%. Samfylkingin flutti tillögu um að horfið yrði frá hækkunum sem þessum að sinni rétt eins og fulltrúar okkar stóðu fyrir í sveitarstjórnum fyrir áramótin, þ.e. að sleppa gjaldskrárhækkunum eða hætta við þær, en það stóð ekki vilji til þess að ganga svo langt þannig að í stað 3% hækkunar verður hækkunin 2%. Kostnaðurinn af þessu fyrir ríkissjóð er 470 millj. kr. Það má segja að þetta séu ekkert svakalega miklir fjármunir en þetta eru auðvitað miklir fjármunir sem munu leiða til þess að halli verður á ríkissjóði á yfirstandandi ári.

Margir hér á undan mér hafa rætt gjaldskrárhækkanir í heilbrigðiskerfinu og ég sem formaður velferðarnefndar get ekki látið hjá líða að fara aðeins inn í þá umræðu líka, frú forseti. Við fórum yfir fjárlagafrumvarpið í velferðarnefnd án þess við hefðum eitthvert sérstakt hlutverk gagnvart fjárlaganefnd í því efni en við teljum bara rétt í þeirri nefnd að fara vel yfir umgjörðina fyrir málaflokkana á sviði velferðarnefndar. Þar undir er um helmingur fjárlaga ef frá eru talin vaxtagjöld ríkissjóðs. Þetta eru mjög umfangsmiklir málaflokkar. Þeir eru heilbrigðismál, almannatryggingar og atvinnuleysistryggingar auk fleiri mikilvægra málaflokka en þessir eru þeir stærstu og veigamestu sem eru grundvöllur fyrir velferðarkerfi á Íslandi.

Við höfum staðið í því frá hruni að beita ýmsum tegundum niðurskurðar auk þess sem við vorum í tekjuöflun og að skapa forsendur fyrir auknar fjárfestingar, ekki síst í nýsköpun. Það lá alveg fyrir að við töldum að ekki væri hægt að ganga lengra í niðurskurði gagnvart heilbrigðiskerfinu og það voru því mikil vonbrigði þegar ný ríkisstjórn tók við völdum og breytti þeirri stefnu sem mörkuð hafði verið í fjárlögum 2013 þar sem heilbrigðisstofnanir og hjúkrunarheimili voru undanskilin niðurskurði. Vissulega var bætt í á milli umræðna en það urðu samt gjaldskrárhækkanir í mjög viðkvæmum málaflokkum. Ríkið dró úr niðurgreiðslum vegna kaupa á hjálpartækjum um 150 milljónir og dró úr fjárframlögum til þjálfunar um 100 milljónir. Svo voru komugjöld í heilsugæslu hækkuð um 90 milljónir. Þó var haldið við þá stefnu fyrri ríkisstjórnar, ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að hafa komur barna í heilsugæsluna áfram gjaldfrjálsar. Það er alla vega smáljós í myrkrinu. Varðandi hjálpartækin þá eru 159 milljónir ekki miklir peningar en sá kostnaður leggst á fólk sem vegna sjúkdóma eða fötlunar eða langvarandi veikinda er háð hjálpartækjum fyrir lífsgæði sín.

Hv. þm. Oddný Harðardóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd, lagði fram ágæta fyrirspurn um þetta mál. Þar kemur ítarlega fram hvaða málaflokkar eru undir.

Til dæmis er verið að hækka gjald fyrir öndunarvélar fyrir börn og lífeyrisþega sem og aðra sem ekki falla inn í þessa hópa.

Það er verið að þrengja reglur varðandi gervibrjóst fyrir konur sem hafa farið í brjóstnám vegna krabbameins og valið að láta ekki byggja upp á sér brjóstin heldur notast við gervibrjóst.

Bleiur. Eins og komið hefur verið inn á greiða notendur 10% í stað þess að þær séu að fullu greiddar af ríkinu.

Bað- og sturtustólar með og án hjóla sem og baðbretti. Búið er að þrengja reglurnar varðandi þetta. Iðjuþjálfar hafa miklar áhyggjur af því og hafa meðal annars komið að máli við okkur fulltrúa úr velferðarnefnd. Þeir völdu úr þennan hjálpartækjaflokk sérstaklega. Þeir töldu bagalegt að verið væri að draga úr niðurgreiðslu á hjálpartækjum yfir höfuð en nefndu þennan flokk sérstaklega sem mjög bagalega breytingu.

Þá eru þrengdar reglur varðandi hjálpartæki í bifreiðar, þrengdar reglur varðandi stafi og hækjur, þrengdar reglur varðandi rafknúna hjólastóla og lækkuð hlutdeild ríkisins í greiðslum fyrir öryggiskallkerfi. Það heyra allir sem hlusta á þessa upptalningu að þetta eru hjálpartæki sem allflest okkar í samfélaginu þurfum ekki að reiða okkur á en varða grundvallarlífsgæði fyrir þá sem nota þau.

Dregið var úr greiðsluþátttöku ríkisins vegna þjálfunar og nemur sú lækkun 100 millj. kr.

Svo voru hækkuð gjöld á heilsugæslu 90 milljónir.

Ef við tökum bara saman hækkanir á þessum þáttum eru þær 340 milljónir. Með annarri forgangsröðun hefði verið hægt að hætta við þessar breytingar en í stað þess er valið að lækka gjald á áfengi, lækka gjald á tóbak og lækka kolefnisskatta.

Það er ágætt þegar við ræðum þetta, hversu gott sem fólki kann að þykja að reykja og drekka áfengi, að við getum ekki líkt því saman hversu miklu minna máli það skiptir að lækka gjöld á þessa vöruflokka miðað við það að tryggja jöfnuð í aðgengi að hjálpartækjum fyrir þá sem þess þurfa, fyrir nú utan það að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin leggur ríka áherslu á varðandi áfengis- og tóbaksvarnir að það sé einmitt verð og aðgengi sem séu áhrifaríkustu leiðirnar til að draga úr neyslu þessa ávana- og fíkniefna.

Varðandi heilbrigðiskerfið okkar þá kom ég inn á það hér í upphafi að umtalsverður niðurskurður var í því kerfi eftir hrun enda umfang þess það mikið í útgjöldum ríkissjóðs að ekki var hjá því komist. En það verður ekki gengið lengra í niðurskurði í því kerfi. Það þarf að gera áætlanir um hvernig við ætlum að tryggja aukna fjármögnun í þennan málaflokk og þess vegna eru það vonbrigði að verið sé að breyta reglum um þátttöku í kostnaði áður en slíkar áætlanir liggja fyrir.

Það kemur fram hjá Hagstofunni, um útgáfu OECD um heilbrigðiskerfi OECD-ríkjanna, að árlegur samdráttur í heilbrigðiskerfinu á Íslandi hafi verið um 3,8%. Þá erum við reyndar að tala um árið 2011. Það hefur verið skorið niður eftir það. Að meðaltali fóru um 9,3% af vergri landsframleiðslu OECD-ríkjanna til heilbrigðiskerfisins en Ísland var eingöngu með 9% af vergri landsframleiðslu árið 2011. Við erum á pari við Finnland en Svíþjóð, sem hæstv. fjármálaráðherra nefndi hér áðan, var með 9,5% af vergri landsframleiðslu og Danmörk með 10,9% af vergri landsframleiðslu.

Auðvitað skiptir máli þegar svona tölur eru skoðaðar að íbúasamsetning er mismunandi. Við erum tiltölulega ung þjóð, yngri en flestar Evrópuþjóðir hlutfallslega, sem þýðir að að einhverju leyti er hægt að skýra lægri útgjöld til heilbrigðismála út frá því, en það breytir því ekki að ekki er hægt að andmæla því að samdrátturinn í heilbrigðiskerfinu er orðinn meiri en við verður unað.

Í tilefni af umræðu hér fyrr í dag um meinta skaðsemi af opinberum heilbrigðistryggingum er ágætt að benda á að Bandaríkin, sem eru einmitt með markaðsvæddar heilbrigðistryggingar, eyða 17,7% af vergri landsframleiðslu í heilbrigðismál. Það eru mjög góð rök gegn því að það sé sérstaklega þjóðhagslega hagkvæmt að einkavæða opinberar heilbrigðistryggingar.

Það sem hefur líka verið skorið niður í fjárlögum — við fórum í þá umræðu hér fyrir jólin — eru skráningargjöld í háskóla, en að megninu til er ungt fólk í háskólum. Skráningargjöldin voru hækkuð úr 60 þús. kr. í 75 þús. kr. Það sem var enn fremur gagnrýnt við þessa hækkun, sem er of mikil að okkar mati í Samfylkingunni, var að hún verður enn verri í því ljósi að hún rennur ekki einu sinni til háskólanna heldur verður nýtt í aðra þætti, m.a. lækkun á veiðigjaldi til útgerðarinnar.

Um leið og við í Samfylkingunni lítum það jákvæðum augum að ríkisstjórnin standi við gefin loforð um að endurskoða gjaldskrárhækkanir teljum við algjörlega óviðunandi að ekki sé litið til þeirra gjaldskrárhækkana sem hafa orðið í heilbrigðiskerfinu og að ekki sé horft til aukinna álaga á háskólastúdenta í gegnum skráningargjöld.

Ég heyri að minni hlutinn, a.m.k. þeir sem hér hafa talað fyrir hönd Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, er samstiga í þessu máli og ég treysti því, frú forseti, að í efnahags- og viðskiptanefnd verði þetta skoðað sérstaklega og kannað hvort stjórnarliðar séu ekki tilbúnir til þess að endurskoða örlítið forgangsröðunina frá mengun og fíkniefnum yfir í heilbrigðismál.