143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[17:05]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og þessa upprifjun. Forvarnir skipta mjög miklu þegar við ræðum áfengismál en eins og hv. þingmaður benti á hafa rannsóknir sýnt að aðgangsstýring — Alþjóðaheilbrigðismálastofnun hefur meira að segja tekið það upp að sú aðgangsstýring sem til að mynda hefur verið hér á Íslandi, í Noregi, í Svíþjóð og víðar, í Kanada — hefur í raun meiri áhrif en forvarnirnar þó að þær skipti að sjálfsögðu líka máli.

Þó að neyslumynstur á áfengi hafi breyst verulega á síðustu áratugum stafa engu að síður gríðarleg heilbrigðisvandamál af áfengis- og tóbaksneyslu. Þar er ég ekki eingöngu að tala um félagsleg áhrif, ég er að tala um heilbrigðisvandamál sem við þekkjum til að mynda frá löndum sem yfirleitt þykja mun siðmenntaðri en við í áfengisneyslu. Ég nefni Frakkland sem dæmi þar sem áfengisneysla er eigi að síður gríðarlegt heilbrigðisvandamál, lifrarsjúkdómar og annað slíkt. Þar er hreinlega horft til þess hvernig fara eigi að því að takmarka aðgengi. En þetta eru kannski hlutir sem þyrfti miklu betra tóm til að ræða.

Hv. þingmaður ber þetta saman við komugjald í heilsugæslunni og aukinn hlut sjúklinga þar, þeir sem þurfa að leita til heilsugæslunnar geta þá á móti fengið lækkun á áfengi út úr ríkinu. Mig langar þá að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að það hefði verið viturlegra skref — við horfum upp á það að kostnaðarþátttaka sjúklinga í heilbrigðisþjónustu hefur farið vaxandi. Það er nokkuð sem ég tel að við þurfum að ræða hér á þinginu, hvernig við getum unnið gegn því, hvernig við getum horft til þess að lækka þann kostnað, jafna hann og lækka hann niður á við. Telur hv. þingmaður, af því að henni varð tíðrætt um komugjaldahækkanir á heilsugæslu, (Forseti hringir.) að það sé þáttur sem sé mikilvægt að skoða í því samhengi að draga úr þessari kostnaðarhækkun?