143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[17:10]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er fullkomlega réttmætt að ræða það hér þó að maður hefði ætlað annað miðað við umræðuna um heilbrigðismálin og ástandið í heilbrigðiskerfinu, fór meðal annars mjög hátt á haustþingi, að þegar kæmi að því að ráðstafa ríkistekjum eða gefa eftir tekjur ríkisins þá horfðu menn eitthvað til þeirra mála. Það birtir auðvitað tiltekna forgangsröðun hvernig borið er niður eða valið að fara í eftirgjöf upp á 460 milljónir sem eru hér til útdeilingar.

Af því að hv. þingmaður nefndi sérstaklega kostnaðarþátttöku almennings og heilbrigðiskerfið væri fróðlegt að inna hana eftir því hvar hún teldi mestu þörfina fyrir að létta af álögum í því kerfi eða setja inn meiri pening. Eru það komugjöldin í heilsugæslustöðvunum? Eru það afmarkaðir hópar innan lyfjaendurgreiðslukerfisins, t.d. þeir sem urðu fyrir íþyngjandi áhrifum af breytingunum sl. vor? Eru það hjálpartækin til fatlaðra o.s.frv.?

Í öðru lagi spyr ég hv. þingmann, m.a. sem fyrrverandi formann fjárlaganefndar: Hvernig væri skilvirkt að hennar mati að fara með þessa fjármuni? Er það með þeirri aðferð að smyrja þeim mjög þunnt ofan á marga fjárlagaliði með lækkun upp á nokkra tugi aura sem erfitt er að sjá að trygging sé fyrir að skili sér í verði til neytenda eða með því að velja einhverja afmarkaða liði, vera þar með sýnilegar fjárhæðir svo að hægt væri að fylgja eftir og rekja þær? Hvar kæmu fjármunir best að gagni ef við berum t.d. saman að lækka örlítið bensíngjald, í samhengi með álagningu olíufélaganna og verðsveiflum vegna gengisbreytinga og innkaupsverðs, (Forseti hringir.) versus að lækka einfaldlega komugjöld á heilsugæslustöðvum? (Forseti hringir.) Það er varla vafi á (Forseti hringir.) því hvort er skilvirkara í skilningnum að koma neytendum (Forseti hringir.) til góða.