143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[17:17]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar hv. þingmaður var fjármálaráðherra tók ég þátt í því með honum og öðrum stjórnarliðum að hækka ýmsar álögur og skatta. En það var ekki gert flausturslega heldur reynt að forgangsraða þannig að byrðarnar færu á þá sem breiðust hefðu bökin og reynt að hlífa þeim sem minna höfðu. Svo voru lækkaðir skattar í einhverjum tilfellum og afnuminn virðisaukaskattur, t.d. á endurbætur á húsnæði og slíkt, sem hafði þá markvissu stefnu að skapa atvinnu. Það var því skýr og ákveðin hugsun að baki.

Líka var lagt upp úr því að halda aftur af hækkunum á komugjöldum í heilsugæslu einmitt af því að almennur tekjuskattur er góð leið til að afla tekna og dreifa síðan hluta þeirra aftur út í samneysluna þar sem þeir njóta sem á þurfa að halda, samanber sjúklingar í heilbrigðiskerfinu, lífeyrisþegar í almannatryggingakerfinu og atvinnulausir í atvinnuleysistryggingakerfinu. En þegar ný ríkisstjórn tók við valdi hún að lækka tekjuskatt en leggja í staðinn álögur á þá sem síst voru í færum til að taka á sig þyngri byrðar, nefnilega sjúklinga og eldri borgara.