143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[17:19]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta eru búnar að vera ágætar umræður hér í dag og margt ágætt hefur komið fram sem, eins og var sagt áðan, veltir kannski upp miklu fleiri spurningum en þetta litla frumvarp tekur á. Ég held að við séum öll sammála um að þau fjárhagslegu áföll sem dundu yfir þjóðina þegar bankakerfið okkar hrundi hafi krafist þess að við færum í mikla naflaskoðun, bæði varðandi niðurskurð og öflun tekna. Við vitum að ríkissjóður þarf að afla sér meiri tekna, ég held að við deilum ekkert um það, en hvaða leiðir eru vænlegastar til árangurs? Um þær deilum við og ég held að þetta frumvarp sé eitt af þeim deiluefnum.

Í kostnaðarumsögninni segir, með leyfi forseta:

„Sú aðgerð að lækka eldsneytisgjöld og áfengis- og tóbaksgjöld um eitt prósent leiðir til þess að tekjur ríkissjóðs [af umræddum gjaldstofnum] munu lækka um 460 millj. kr. á ársgrundvelli. Þar af nemur lækkun eldsneytisgjalda nálægt 270 millj. kr. og áfengis- og tóbaksgjalda 190 millj. kr. Þeirri lækkun er mætt með áformum um breytt fyrirkomulag við álagningu tóbaksgjalds og auknum arðgreiðslum frá ÁTVR þannig að afkoma ríkissjóðs haldist óbreytt frá áætlun fjárlaga.“

Ég held að ekki sé hægt að bæta afkomu ríkissjóðs í sjálfu sér með því að auka arðgreiðslurnar frá ÁTVR ef tekjur fyrirtækisins lækka. Arðgreiðslan er ráðstöfun á afkomu fyrri ára. Ríkissjóður er búinn að vinna sér fyrir þessum arði og arðurinn sem ÁTVR á núna að skila í auknum mæli kemur af álagningunni, eins og hér hefur komið fram og ber að halda til haga. Ef ríkissjóður hefði gert samstæðuuppgjör væri búið að taka tillit til þessarar afkomu í ríkisreikningi. Ef það er svona einfalt að sippa til tekjum og taka út úr efnahagsreikningi ÁTVR, af hverju er þá ekki bara hreinsað út í lok árs og það sem eftir stendur árlega, að frádregnum ætluðum nýframkvæmdum, og sett inn í ríkissjóð? Er það ekki hreinlegast ef þetta á að vera leiðin til bjargar á móti lækkuðum gjöldum?

Hæstv. fjármálaráðherra svaraði ekki þeirri spurningu hvernig ætti að útfæra álagninguna sem kemur hér fram að eigi að gera. Það verður áhugavert að sjá hvernig hann ber sig að með það. Hér hefur verið rætt töluvert um hvort þessar lækkanir skili sér til þjóðarinnar þannig að þær skipti einhverju máli og hvernig við komum til með að fylgja því eftir og greina það að neytendur njóti þessara lækkana, eins og af bensíni og olíu. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram, auðvitað hefði verið skynsamlegra að setja þetta í einhver tiltekin lyf eða annað innan heilbrigðisþjónustunnar eða þá til menntastofnana eða annars staðar sem við hefðum getað borið niður. Allt hefði verið uppi á borðinu og upplýsandi en ekki einhver ómöguleiki í að fylgja því eftir að sjá aurana verða neytendum til góðs.

Mér finnst þetta ekki ósvipað og 5 milljarða breytingin á tekjuskattinum sem ríkisstjórnin lagði fram í fjárlagafrumvarpinu þar sem mjög margir neytendur finna lítið fyrir því. Þeir sem hafa mest finna eitthvað örlítið fyrir 3 þús. kallinum en það skiptir ríkissjóð hins vegar miklu meira máli. Þetta er alltaf spurning um, eins og hefur komið fram, hvernig við forgangsröðum. Af hverju var sú leið ekki valin að draga úr einhverjum þeim útgjöldum sem hér hafa verið nefnd, t.d. komugjöldum eða hjálpartækjum, greiðsluþátttöku krabbameinssjúklinga eða sykursjúkra, rannsóknum og greiningum? Ég trúi ekki öðru en að hæstv. ráðherra taki undir að það hefði komið sér betur fyrir þá sem helst þurfa á því að halda af því að fólk lendir í óvæntum útgjöldum ef það fær krabbamein eða ef það þarf að sækja sér læknisþjónustu. Það er ekki kostnaður sem við óskum sérstaklega eftir. Það hlýtur að vera heppilegra að veita peninga í slíkt frekar en að vera með flatan niðurskurð eins og hér er gert ráð fyrir.

Mig langar að lesa það sem Starfsgreinasambandið skrifaði eftir áramótin. Þetta er sett í samband við kjarasamninga sem eru hluti þess sem hér er undir. Starfsgreinasambandið segir, með leyfi forseta:

„Blekið er ekki þornað af nýgerðum kjarasamningum þegar stjórnvöld senda kaldar kveðjur til launafólks í formi gjaldskrárhækkana. Komugjöld á heilsugæslustöðvar hækkuðu um 15–20% þann 1. janúar síðastliðinn.“

Svo segir orðrétt í bréfi sem fjármálaráðherra undirritaði þann 21. desember:

„Næstu tvö ár verði gjaldskrárhækkanir ríkisins undir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands …“

Verðbólgumarkmið Seðlabankans er 2,5% á 12 mánuðum, en rúmri viku eftir undirritun yfirlýsingarinnar hækkuðu komugjöldin á heilsugæslustöðvarnar, eins og áður sagði.

Hér má líka vitna til þess sem ASÍ hefur sagt um áform ríkisstjórnarinnar í fjármálunum yfirleitt. ASÍ hefur ályktað að ekki sé ljóst hvernig ríkisstjórnin ætli að ná tökum á óstöðugu gengi krónunnar, þrálátri verðbólgu eða hvernig hún sjái fyrir sér afnám gjaldeyrishafta án þess að hagsmunir launafólks og heimila verði fyrir borð bornir og ekki heldur hvernig hún ætli að haga stjórn peningamála til framtíðar. Þetta er eitt afsprengi þess að það er komið fram með að mínu mati illa ígrundað frumvarp um flatan auraniðurskurð sem á svo að sækja í einhverja aðra ríkisstofnun.

Alþýðusambandið átelur að áherslurnar í fjárlagafrumvarpinu gangi þvert á áherslur verkalýðshreyfingarinnar á velferðarkerfi vinnumarkaðarins þar sem dregið er úr framlögum til framhaldsskóla. Það telur að það bitni illa á verk- og tækninámi þar sem átaksverkefni sem eiga að tryggja atvinnuleitendum aðgang að framhaldsskólum eru aflögð og það átelur niðurskurðinn á framlögum til ráðgjafar til atvinnuleitenda og vinnumarkaðsúrræða.

Svo ætlar ríkisvaldið ekki að standa við umsamin framlög til starfsendurhæfingarsjóða en þau framlög byggja á samkomulagi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Þetta ræddum við töluvert í vinnu við fjárlögin og ég er ekki viss um að það að koma til móts við vinnumarkaðinn vegna kjarasamninga og leggja þetta til sé leiðin til árangurs.

Við gagnrýndum innritunargjöldin í opinbera háskóla, eins og kom ágætlega fram í áliti minni hluta í efnahags- og viðskiptanefnd við gerð fjárlagafrumvarpsins, og gerum það enn. Við vinstri græn erum ósátt við það og mér heyrist að þeir sem hér hafa talað af hálfu minni hlutans séu okkur sammála.

Ég hef mikið rætt um málefni Vegagerðarinnar og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór líka ágætlega yfir þau áðan. Mér finnst ástæða til að rifja upp að helstu skýringarnar á hallarekstri Vegagerðarinnar í fyrra hafi meðal annars verið uppsafnaður halli sem er verulega mikill og svo erum við með 700 millj. kr. ófjármagnaða vetrarþjónustu að sögn fulltrúa innanríkisráðuneytisins sem kom á fund fjárlaganefndar um daginn. Vegagerðin er búin að fá tugmilljónaframkvæmdafé fyrir fram, sagði hæstv. fjármálaráðherra áðan, og þá spyr maður hvort hún eigi að greiða það til baka. Um það spurði ég bæði innanríkisráðherra og fjármálaráðherra og fékk loðin svör en svo sáum við að framlögin voru skert í fjárlagafrumvarpinu þannig að endurgreiðsla er í raun hafin.

Nú liggur fyrir frumvarpið um markaðar tekjur og þar er stofn Vegagerðarinnar undir. Það er réttlætismál og spurning hvort búast megi við verulega skertum framlögum ef taka á tillit til þess sem fella þarf niður af því sem kom fram áðan hjá hæstv. ráðherra, að staða Vegagerðarinnar er ekki góð.

Fulltrúi innanríkisráðuneytisins kom til okkar í fjárlaganefnd um daginn og eins úr hinum ráðuneytunum og það sést mikill veikleiki í fjárlagafrumvarpinu.

Það eru alltaf tvær hliðar á peningnum og að lokum langar mig aðeins að fara yfir þá veikleika sem snúa helst að því að tekjurnar eru ofmetnar og að mjög miklu leyti held ég að það sé ástæða veikleikans og svo staða stofnana ríkisins sem er ekki tekin nema að hluta til inn í frumvarpið. Það er bara ákvörðun að ræða ekki stöðu tiltekinna stofnana.

Bankaskatturinn er mikið vafamál sem og áhrif skuldalækkunaráformanna. Við munum að hann var nífaldaður, sagði formaður efnahags- og viðskiptanefndar, og það er sjálfsagt til að fjármagna skuldaloforð Framsóknarflokksins.

Við vitum að arðgreiðslur Landsvirkjunar skila sér ekki eins og gert var ráð fyrir. Vissulega koma auknar arðgreiðslur frá Landsbankanum að einhverju leyti á móti en það hefur komið fram hjá hv. formanni fjárlaganefndar að veikleikamatið sé upp á eina 4 milljarða í fjárlagafrumvarpinu.

Það er rekstur, eins og ég sagði áðan, hjá innanríkisráðuneytinu, það er rekstur héraðsdómstólanna, það er embætti sérstaks saksóknara, það eru lögreglu- og sýslumannsembætti undir og í samgöngumálunum er það meðal annars vetrarþjónusta Vegagerðarinnar og Samgöngustofa. Hér kemur fram að ráðuneytið hefur ákveðið að hafa Vegagerðina ekki á veikleikalista ráðuneytisins og stofnunin gerir ekki ráð fyrir veikleikum í rekstraráætlun sinni. Eins og kunnugt er hefur hún dregið úr vetrarþjónustu sinni vegna þess að rekstri hennar hefur verið stefnt í vandræði á nokkrum stöðum á landinu vegna snjóþunga í vetur. Mér finnst þetta afar óeðlilegt.

Svo er ágreiningur vegna Póst- og fjarskiptastofnunar. Í minnisblaði frá fjármálaráðuneytinu þar sem farið er yfir veikleikana er talað um að ekki sé endalaust hægt að fresta búnaðarkaupum, viðhaldi og öðru slíku. Það er talað um að laun, uppsagnarfrestur og annað muni hafa áhrif á fjárhagsstöðu ráðuneytanna þannig að það skilar sér ekki inn á árinu.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið er með 300 millj. kr. rekstrarveikleika og hefur ekki lagt fram áætlanir um hvernig eigi að lagfæra hann. Þar undir eru meðal annars títtnefndir landbúnaðarháskólar sem ráðherra hefur slegið í og úr með hvað hann ætlar að gera með sem og bara framhaldsskólarnir yfirleitt.

Velferðarráðuneytið hefur heldur ekki lagt fram áætlanir um hvernig það ætlar að bregðast við 500–750 millj. kr. hallarekstri lífeyristrygginga en telur að það verði vandgert nema með því að endurskoða réttindi.

Það er margt í þessu sem verður erfitt fyrir ríkisstjórnina að eiga við. Ég held að við í minni hlutanum þurfum að vera afar vel á verði hvað varðar forgangsröðun þegar kemur að því. Ég hef miklar áhyggjur af því að farið verði í enn frekari niðurskurð á tímabilinu en nú þegar hefur verið bæði boðaður og framkvæmdur. Ég held að það sé svolítið okkar hlutverk að reyna að lagfæra það sem hér liggur fyrir með því að koma á breytingum (Forseti hringir.) sem við teljum heppilegri og nýtist neytendum beint í staðinn fyrir dulinn aurakostnað.