143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[17:34]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Á vef ASÍ er fjallað um ýmis gjöld í heilbrigðisþjónustunni sem hækka og bent á nýlega rannsókn Félagsvísindastofnunar sem sýnir að allt að þriðjungur Íslendinga frestaði því í fyrra að sækja sér nauðsynlega læknisþjónustu og að öryrkjar og lágtekjufólk séu enn líklegri til að hafa frestað því að sækja sér heilbrigðisþjónustu en aðrir. Það hlýtur að vera verulegt áhyggjuefni hversu margir nefna kostnað í því sambandi þegar þeir ákveða að fresta því að leita sér lækninga. Það ætti að vera okkur umhugsunarefni vegna þess að bein greiðsluþátttaka sjúklinga hefur á undanförnum árum farið vaxandi hér á landi og það er þróun sem við ættum frekar að vinna gegn en að auka í, eins og ríkisstjórnin sem nú er við völd virðist gera. Ég vil spyrja hv þingmann hvað henni finnist um þá þróun.

Fyrr í umræðunni gerði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra lítið úr krónutöluhækkunum á hjálpartækjum. Það eru ekki alltaf háar upphæðir en samt sem áður kemur í ljós að hjálpartæki vegna kæfisvefns fer úr 18 þúsund í 31.800, eða hækkar um 77% á ársgrundvelli, og kostnaður fullorðinna sem þurfa að nýta sér bleiur getur hækkað um 4–5 þúsund kr. á mánuði. Ég vil spyrja hv þingmann út í þessa kjaraskerðingu og hvort hún telji hana réttlætanlega.