143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[17:37]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að taka undir með hv. þingmanni. Ég deili þeirri skoðun hennar að þetta sé mjög dapurt. Við vissum það og höfðum rætt í fyrrverandi ríkisstjórn að við mundum taka þessi málefni í fóstur og gera betur við þau vegna þess vanda sem við var að etja og við þurftum að fara í eftir hrun. Það að stór hluti fólks fresti því að sækja sér heilbrigðisþjónustu, af hvaða tagi sem er, er afar döpur staða og eitthvað sem manni finnst að ætti ekki að eiga sér stað í því samfélagi sem við búum í og teljum okkur búa í, velferðarsamfélagi. Ég held að með því að gera lítið úr krónutöluhækkunum, eins og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra gerði áðan, sé hann að skjóta sig svolítið í fótinn því að þegar við ræddum 5 milljarða kr. tekjuskattslækkun, sem ríkissjóður fær minna í kassann en á að deilast jafnt yfir alla, þetta er dæmi um flatan skatt eða niðurfellingu, voru þar minnst 300 kr., eins og við munum. Er hann þá ekki að gera lítið úr því?

Ég held að fyrir þá sem lítið hafa á milli handanna, sem eru eldri borgarar, öryrkjar, mjög margir, auðvitað ekki allir eins og alltaf, skipti þetta máli. Þar skiptir hver króna máli. Þó að hún skipti kannski minna máli fyrir mig eða einhvern annan þá er þetta þannig að fólkið sem nýtir sér þjónustuna, eins og ég sagði líka áðan, kýs ekki að þurfa að sækja sér hana. Mér finnst það vera grundvallarmálið og þess vegna hefði ég viljað sjá (Forseti hringir.) forgangsröðun í þá veruna að þarna væru (Forseti hringir.) einhverjir póstar lækkaðir beint.