143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[17:44]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan þá eru alltaf tvær hliðar á peningnum. Ég hefði frekar viljað sjá beinar lækkanir á því sem varðar veikt fólk, af því að fram kom að gjöld voru hækkuð og ákveðið misræmi varð. Ég held að það hafi ekki verið meiningin þegar ýmis gjöld voru hækkuð er varða sjúklinga og veikt fólk. Ég hefði frekar viljað leiðrétta það en að fara út í þessa lækkun.

Ég tek undir það að sem betur fer hækka þessir hlutir ekki sjálfkrafa. Þeir eru gjarnan ræddir hér fyrir áramótin og hæstv. ríkisstjórn var bent á að hún gæti aflað tekna með öðrum hætti og þyrfti á sama tíma ekki endilega að hækka öll þessi gjöld, en hún hlustaði ekki á það þá.

Varðandi heilsufarið almennt og áfengið og tóbakið er auðvitað miklu auðveldara að stýra neyslunni, eins og kom fram í umræðunni áðan. Við getum gert það og það eru bestu forvarnirnar að vera með neyslustýringuna í álögum á áfengi og tóbak. Ég vil miklu frekar gera það, mér finnst frekar neysluhvetjandi að lækka gjöldin. Mér finnst það ekki gott því að það hefur jú ákveðnar afleiðingar í för með sér; aukinn heilbrigðiskostnað, ég held að það sé alveg ljóst að draga má af því ályktanir út frá rannsóknum sem gerðar hafa verið að aukið aðgengi að áfengi og tóbaki og aukin neysla o.s.frv., kallar á aukna heilbrigðisþjónustu. Ég held því að við hefðum átt að fara hina leiðina, þ.e. að lækka einhverja beina kostnaðarliði fremur en að fara í auratalningu á gjöldum á áfengi og tóbaki.