143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[18:16]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mér finnst þetta með afbrigðum áhugaverð umræða og ég er engan veginn kominn að endanlegri niðurstöðu vegna þess að málið flækist heldur hratt. Með hærra verði má gera ráð fyrir að heimabrugg verði meira. Á móti koma þær rannsóknir sem hv. þingmaður hefur talað svolítið um. Og aftur inni ég hv. þingmann eftir aðeins meiri upplýsingum um þær rannsóknir. Ég hef mikinn áhuga á að skoða þær nánar.

En svo er eðli áfengisvandamála oft misjafnt. Við heyrum til dæmis lítið í sambandi við Frakkland, þar sem er einmitt mikil áfengisneysla, um fylliraftaskap. Maður heyrir alla vega ekki að það sé aðalvandamálið hvað varðar áfengisneyslu í Frakklandi heldur fyrst og fremst lifrarsjúkdómar, skorpulifur og þess háttar, sjúkdómar sem koma af hóflegri neyslu í langan tíma, eða sem teldist alla vega hófleg á íslenskan mælikvarða. Á Íslandi brjótast vandamálin sem fylgja áfengisneyslu kannski helst út í alls kyns hegðunarvandamálum og fylliríi frekar en skorpulifur, það er alla vega ekki það fyrsta sem manni dettur í hug þegar maður hugsar um áfengisvandann á Íslandi. Þetta verður flókið hratt og maður þarf stundum að spyrja hvort maður vilji lifa við eitt vandamál frekar en annað. Það er auðvitað mat hvers og eins.

Hv. þingmaður nefndi að sumir vildu meina að um væri að ræða tímabundin áhrif. Það er eitt af því sem ég hef áhyggjur af. Ég hef áhyggjur af því að fólk venjist verðinu og þess vegna sýni svona rannsóknir fram á einhverja virkni sem er tímabundin og fer aftur upp. Ég heyrði einhvern tímann fulltrúa frá Vínbúðinni nefna þetta, að neyslan væri að aukast aðeins aftur, vegna þess að fólk væri búið að venjast hækkununum sem orðið hefðu á árinu eða árið þar á undan. (Forseti hringir.) Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður gefi eitthvað fyrir þau rök og hvort hann vilji svara þeim.