143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[18:21]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson, sem er jafnframt fyrrverandi heilbrigðisráðherra eða velferðarráðherra eins og mátti alveg heyra á ræðu hans, dró athyglina að því sem fleiri hafa nefnt, þeirri skrýtnu forgangsröðun sem birtist okkur í þessu frumvarpi eða útfærslu á lækkununum og svo samhengi þeirra við það sem gert var í fjárlögunum. Hér er lögð til lækkun á gjaldi á áfengi og tóbak á sama tíma og umtalsverð hækkun á komugjöldum á heilsugæslustöðvar er að koma til framkvæmda og einnig hækkun á greiðsluþátttöku vegna hjálpartækja og sjúkraþjálfunar eða hvað það nú er.

Verðlagsforsendurök hæstv. fjármálaráðherra halda ekki vel þegar þetta er skoðað í samhengi; 20% hækkun á komugjöldunum en hér skipti öllu máli að fara úr 3% hækkun niður í 2% hækkun í áfengis- og tóbaksgjöldum. Ef verðlagsslaki á hvort sem er að vera í einhverjum af þessum gjöldum þá hlýtur að mega velja hvar það kemur niður. Hv. þingmaður, sem fyrrverandi formaður fjárlaganefndar, getur væntanlega staðfest að mönnum væri ekkert að vanbúnaði að gera þá þær millifærslur innan fjárlaga ársins ef á þyrfti að halda, að færa tekjur til, kannski þyrfti þess í fjáraukalögum, þannig til dæmis að menn drægju úr innheimtunni á heilsugæslustöðvunum, færðu tekjur af áfengis- og tóbaksgjaldi, eða bensíngjaldi eða bara af almennum tekjum ríkisins, yfir í minni sértekjuöflun á öðrum stöðum í fjárlögunum. Það væri fróðlegt að heyra hv. þingmann fjalla aðeins um það.

Út frá prinsippunum í þessu veltir maður í öðru lagi fyrir sér hvaða forspárgildi sú forgangsröðun hefur fyrir það sem í vændum er, fyrir það sem koma skal ef þessi ríkisstjórn (Forseti hringir.) skyldi nú halda velli enn um sinn.