143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[18:30]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það gerist einhvern veginn í þessari umræðu að við færumst þrjá mánuði aftur í tímann, til 18. desember eða þar um bil, þegar fjárlagafrumvarpið var hér til umræðu. Þá stóðu einnig yfir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði. Þá var búið að telja launamönnum á almennum vinnumarkaði trú um það, og segja má að allar stofnanir landsins hafi gert það, Seðlabankinn, ríkisstjórnin, Samtök atvinnulífsins og meira að segja Alþýðusamband Íslands, að ef launahækkanir færu fram yfir verðbólgumarkmið Seðlabankans upp á 2,5% væri það launafólki í landinu að kenna að verðbólguhjólið færi aftur af stað. Launafólk í þessu landi ber mikla ábyrgð.

Á þeim tíma lögðum við í Samfylkingunni til og sendum út fréttatilkynningu þess efnis að fallið yrði frá öllum gjaldskrárhækkunum í samræmi við frumkvæði fulltrúa Samfylkingarinnar í Reykjavík og sveitarstjórna um allt land. Þá höfðu sveitarstjórnirnar fallið frá gjaldskrárhækkunum sínum til að liðka fyrir þessum kjarasamningum. Reykjavíkurborg hafði tilkynnt gjaldskrárhækkanir í nóvember eða þar um bil, hafði þá ekki hækkað gjaldskrár í mörg ár, en þá var það sett á ábyrgð Reykjavíkurborgar ef ekki næðust kjarasamningar. Reykjavíkurborg féll frá gjaldskrárhækkunum, Hafnarfjarðarbær kom á eftir og fleiri þar á eftir og við samfylkingarmenn lögðum það til í þinginu, í ræðum okkar, við skulum orða það þannig, að ríkisstjórnin gerði slíkt hið sama. Þá voru almennar 3% gjaldskrárhækkanir boðaðar alls staðar.

Þann 21. desember lýsti ríkisstjórnin því yfir til að greiða fyrir kjarasamningunum að hún mundi við samþykkt kjarasamninga, þ.e. ef þeir yrðu endurskoðaðir, endurskoða til lækkunar vissar breytingar á gjöldum sem samþykktar hefðu verið í tengslum við afgreiðslu fjárlaga 2014 til að stuðla að því að verðlagsáhrif sem af þeim leiddu yrðu minni en ella og innan verðbólgumarkmiða Seðlabankans, 2,5%.

Þá munu menn hafa fundið út að það þyrfti að lækka þessar gjaldskrár samtals um 470 milljónir eða eitthvað þar um kring. Það er talan sem er miðað við. Í stað þess að fara úr þessum 3% hækkunum sem voru í fjárlagafrumvarpinu er hér lagt til að lækka ákveðin gjöld um 1 prósentustig, fara úr 3% niður í 2%. Það á að hafa sömu áhrif og ef allar gjaldskrár yrðu lækkaðar, færu ekki upp fyrir hækkunina 2,5%. Þá á að breyta lögum um olíugjald og kílómetragjald sem og lögum um vörugjald af ökutækjum og eldsneyti. Það á líka að breyta lögum um umhverfis- og auðlindaskatta sem og lögum um gjald af áfengi og tóbaki. Síðan á að breyta lögum um stimpilgjald en ég átta mig ekki alveg á því. Stimpilgjald á að greiða á eindaga en ekki gjalddaga í síðasta lagi þannig að ég átta mig ekki alveg á hvort það er hægt að reikna beint upp peningalegan sparnað af því. Auðvitað skiptir máli fyrir fólk hvort það þarf að greiða stimpilgjald. Annars eru vextir svo lágir í landinu að það skiptir kannski ekki miklu máli, þ.e. lágir miðað við verðbólguna, innlánsvextir svo miklu lægri en það sem fólk þarf að borga fyrir lánin þannig að ég veit ekki hvort það munar miklu. En það munar hvort maður greiðir á gjalddaga eða eindaga.

Í viðræðum um kjarasamningana voru líka mjög til umræðu aðrir þættir í fjárlagafrumvarpinu. Ríkisstjórnin hafði til dæmis lagt til að lækka tekjuskatta um 5 milljarða og það átti einungis að koma á þá sem voru í hærri tekjuflokkum. Þá var lagt til að því yrði breytt þannig að þeir sem lægri hefðu tekjurnar nytu þess meira en gert var ráð fyrir í tillögunum. Ríkisstjórnin var ekki tilbúin að ganga að því fyrr en seint og um síðir og fór þá einungis hálfa leið. Það skánaði þó aðeins fyrir þá sem voru í lægri tekjuhópum þó að það hjálpaði ekkert þeim sem voru í lægstu tekjuhópunum.

Því miður virðist í landinu núna ekki jafn mikið hugað að þeim sem lægri hafa tekjurnar og hinum. Því miður er þeim lægra launuðu gert lægra undir höfði en reynt var að gera á síðasta kjörtímabili. Það endurspeglaðist í þessu og endurspeglast líka svolítið í því hvernig þær gjaldalækkanir sem hér eru til umræðu eru allar teknar út í þessum lagabálkum sem ég talaði um en ekki í gjöldunum sem leggjast til í heilbrigðisþjónustunni, hvort heldur það eru komugjöld, hjálpartæki eða lyfjakostnaður.

Mér finnst þetta einkenna þá ríkisstjórn sem nú situr, ekki einungis það að minna sé gert fyrir hina lægst launuðu heldur kemur þetta allt við það hvernig skattar eru nú almennt lagðir á í þessu þjóðfélagi. Það kemur líka vissulega inn á kjarasamningana sem þetta frumvarp er lagt fram út af, af því að það var búið að lofa að greiða fyrir þessum kjarasamningum, að svo virðist sem þeir atvinnuvegir sem ganga best, sjávarútvegurinn og núna ferðaþjónustan, eigi ekki að greiða gjöld sem þeir geta vel staðið undir. Við höfum oft rifjað það upp og það er sjálfsagt að rifja það endalaust upp að veiðigjöldin voru lækkuð, hefðu verið 6 milljörðum hærri í ár ef ekki verið breytt. Gjaldtaka fyrir ferðaþjónustu er væntanlega að verða bara hið mesta klúður sem maður hefur horft upp á. Hér fjölgar ferðamönnum stöðugt en ríkisstjórnin afsalaði sér 1,5 milljörðum í virðisaukaskatt sem hefði náttúrlega orðið miklu meira vegna þess að ferðamennirnir eru miklu fleiri en búist hafði verið við og ná engum tekjum af þeim á þessu ári fyrir bragðið. Fólk er að velkjast um með einhverjar hugmyndir um náttúrupassa, en það verður rætt frekar hér á morgun.

Það er nefnilega þannig, virðulegi forseti, að ef fyrirtækin í landinu greiða ekki skatta og skyldur leggst það á fólkið í landinu. Einhver verður að greiða fyrir samfélagsþjónustuna. Ef fyrirtækin taka ekki þátt í því, sérstaklega fyrirtæki sem gera út á sameiginlega auðlind okkar, hvort sem er fiskurinn í sjónum eða náttúra landsins, er fokið í flest skjól. Hugsið ykkur ferðaþjónustuna sem keyrir margar fullar rútur gullna hringinn á hverjum degi, hún er kölluð fólksflutningar og þess vegna er ekki borgaður af henni virðisaukaskattur. Við erum að byggja upp atvinnuvegi í landinu sem eiga ekki að borga skatta eða skyldur. Þá leggst kostnaðurinn á fólkið í landinu og þess vegna þarf að hækka komugjöld á spítala eða hvað það er því að við þurfum að standa undir samfélagsþjónustunni, virðulegi forseti.

Ég er svolítið hugsi yfir þessu. Menn segja að það skipti máli hvernig þessi gjöld eru lækkuð núna. Nú væri hægt að lækka gjöld sem kæmu fólki sem minna hefur á milli handanna, öryrkjum og gömlu fólki, betur en að lækka nákvæmlega þau gjöld sem við erum að tala um hér. Við erum að tala um 470 milljónir sem út af fyrir sig í öllu heildardæminu eru ekki gífurlega há upphæð. Við þurfum að skoða allt heildardæmið, ekki bara hvernig þessi gjöld eru lögð misjafnlega á, hvernig skattar breytast úr því að vera tekjuskattar eða að fara yfir í það að vera einfaldlega nefskattar. Þá borgar sá sem minna hefur jafn mikið og sá sem meira hefur í þeim skatti. Við þurfum einnig að skoða hvernig við skiptum skattbyrðinni á milli fólksins í landinu og fyrirtækjanna.

Allt þetta tala ég um vegna þess að tillögurnar hér voru settar fram til að greiða fyrir kjarasamningum í landinu. Ég er þeirrar skoðunar að fyrirtækin í landinu þurfi að taka meiri ábyrgð á því að greiða í fyrsta lagi mannsæmandi laun og í öðru lagi að þau þurfi að greiða til samfélagsins. Ég gef lítið fyrir tískuorð sem mikið er notað þessa dagana, samábyrgð. Það er talað um samábyrgð fyrirtækja sem felist í því að fyrirtæki borgi í einhverja góðgerðastarfsemi. (Forseti hringir.) Ég tel að þátttaka fyrirtækjanna í samfélagsþjónustunni þurfi að vera almennari en þau þurfa fyrst og síðast að greiða hærri laun.