143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[18:48]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég veit rétt er þessi upphæð, sem er 460 milljónir, fengin þannig að það eru sem sagt gjaldahækkanir í fjárlagafrumvarpinu upp á 3% en síðan segir ríkisstjórnin: Við skulum lækka það, við skulum sjá til þess að heildaráhrifin verði ekki nema 2,5% sem er verðbólgumarkmiðið sem stefnt var að í kjarasamningum.

Síðan eru kjarasamningarnir gerðir og þá, ef ég skil þetta rétt, eru fundin einhver gjöld sem nema þessari upphæð og sagt: Já, við náum þessari heildarupphæð með því að lækka þessi gjöld og ekki önnur. Það er því sem verkalýðshreyfingunni var lofað þannig að ég get ekki séð að verkalýðshreyfingin gæti haft neitt á móti því að við tökum það bara út frá þeirri staðreynd.

Í öðru lagi held ég að verkalýðshreyfingin sem var að reyna og tókst í þessum samningum að einhverju leyti að hækka heldur meira þá sem minnst hafa — og það er ljóst að fyrir þá sem minnst hafa er betra að komugjöld á heilsugæslustöð hækki ekki um 20% (Forseti hringir.) þannig að ég get ekki ímyndað mér annað en að það gæti bara fallið verkalýðshreyfingunni vel.