143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[18:53]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðséð á reynslunni að ekki er auðvelt að hækka lægstu laun og minnka launamun í landinu. Það hefur þó eitthvað tosast. Það má ekki gleyma því heldur. En betur má ef duga skal.

Hluti af því sem ég var að reyna að segja í ræðu minni hér áðan sneri að áhrifum atvinnulífsins eða fyrirtækjanna í landinu. Ég ber mikla virðingu fyrir þeim og auðvitað má það ekki vera þannig að atvinnuvegir landsins séu þjakaðir af allt of háum gjöldum. Það er alveg ljóst að atvinnuvegirnir þurfa að blómstra til þess að veita vinnu og til þess að geta greitt mannsæmandi laun. En atvinnulífið þarf líka að leggja til samfélagsins og verður að sýna samfélagslega ábyrgð með því að vera tilbúið til að greiða sinn hluta af kökunni, líka vegna þess að ef fyrirtækin í landinu greiða ekki skatta þurfum við að gera það, þá þarf fólkið að gera það. Samfélagið kostar.

Kannski má vera að Samtök atvinnulífsins hafi áhrif á það að það er raforkuskattur og kolefnagjald og þetta sem lækkar. Ég veit það ekki, en (Forseti hringir.) það kæmi mér ekkert á óvart. Það þýðir ekki að við í þinginu eigum ekki að reyna að breyta hvernig þessu er deilt niður á hin breiðu bök og þau sem eru ekki jafn breið.