143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[18:55]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um gjaldskrárlækkanir o.fl. og kennir þar ýmissa grasa. Eins og komið hefur fram lagði ríkisstjórnin fram yfirlýsingu þegar kjarasamningar voru gerðir á almenna vinnumarkaðnum milli Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands. Hún gekk út á það að ríkisstjórnin lýsi yfir að hún muni við samþykkt kjarasamninga endurskoða til lækkunar vissar breytingar á gjöldum, sem samþykktar voru í tengslum við afgreiðslu fjárlaga 2014, til að stuðla að því að verðlagsáhrif sem af þeim leiði verði minni en ella og innan verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands, sem er 2,5%. Lækkun ofangreindra gjalda, úr 3% í 2%, eða um 1 prósentustig, eins og lagt er til í þessu frumvarpi, tekur mið af þeirri yfirlýsingu.

Ég talaði sjálf fyrir því í umræðu um fjárlög að við ættum að hlusta á kall verkalýðshreyfingarinnar um að fara vægar í gjaldskrárhækkanir á okkar vegum og horfa til sveitarfélaga eins og Reykjavíkurborgar í þeim efnum. Þetta hefur áhrif á verðbólgustigið í landinu, allar gjaldskrárhækkanir. Það er nauðsynlegt, hvort sem um er að ræða ríkið eða fyrirtæki, verslanir, fyrirtæki almennt í landinu sem selja vöru sína og þjónustu, að horft sé til þess að reyna að stíga saman það skref að hleypa ekki óðaverðbólgu af stað.

Okkur hefur nú tekist á undanförnum árum frá hruni að vinna ansi vel á verðbólgunni sem var, að mig minnir, komin upp í 18% eftir hrunið. Auðvitað er maður hlynntur því að varðveita þann árangur sem náðst hefur í baráttunni við verðbólguna allt frá hruni og að allir aðilar séu samstiga í þeim efnum og enginn skorist undan.

Burt séð frá því finnst mér það ekki eðlileg framkvæmd að smyrja þetta svona yfir línuna innan fjármálaráðuneytisins, að það hefði mátt draga þarna þætti út úr sem vega miklu þyngra gagnvart þeim hópum sem ég vildi tala fyrir, þ.e. fyrir láglaunafólk í landinu og það fólk sem býr við erfiðari kjör, hvar sem það er statt hverju sinni. Ég hefði kosið að við hefðum getað nýtt þetta innlegg ríkisvaldsins í kjarasamninga með skilvirkari hætti svo að það hefði nýst betur gagnvart þeim hópum sem ég nefni hér.

Við vitum að kostnaðarþátttakan í heilbrigðiskerfinu hefur verið að aukast á undanförnu árabili, úr 15% upp í 25% eða þar um bil. Það er auðvitað mjög þungt að bera fyrir tekjulágar fjölskyldur í landinu sem þurfa að horfa í hvern eyri og forgangsraða. Fólk þarf að forgangsraða hvort það á að endurnýja eitthvað innan heimilisins eða senda barnið sitt til tannlæknis og þar fram eftir götum. Það verður að horfa til þessa hóps sem er stöðugt að reyna að ná margumtöluðum endum saman.

Hv. þm. Oddný Harðardóttir fór vel yfir miklar hækkanir sem urðu vegna breytinga á reglugerðum hjá Sjúkratryggingum sem sneru að sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun. Við fegnum í velferðarnefnd kynningu á þessu um daginn; farið var yfir ýmsa þætti sem höfðu hækkað og breyst frá því sem var frá áramótum. Mér er það mikið umhugsunarefni þegar ríkisvaldið réttir fram sáttarhönd í gerð kjarasamninga og lofar að koma til móts við launþega með lægri gjaldskrárhækkunum, en er með hinni hendinni að draga upp úr vasa fólks sem er háð hjálpartækjum og fólks sem almennt þarf að sækja heilbrigðisþjónustu; þar er smurt á og breytt frá því sem verið hefur, þ.e. að menn hefðu jafnvel möguleika á að fá ýmis hjálpartæki ókeypis. Núna kostar það og fólk þarf jafnvel að kaupa sér hjálpartækin sjálft sem skiptir máli þegar fólk hefur kannski rétt rúmar 200 þús. kr. í ráðstöfunartekjur.

Ég ætla aðeins að fara yfir það sem var kynnt á þessum fundi í velferðarnefnd nú á dögunum. Þar kom fram að þessi almenna hagræðingarkrafa var í fjárlögum en verðlagsuppfærsla á hjálpartæki og sérgreinalækna og heilsugæsluna kemur virkilega við það fólk sem á þarf að halda. Það er verið að hækka gjöld á vélar sem fólk fær heim vegna kæfisvefns. Einnig er hækkun á bleium sem eldra fólk þarf að nota, það er 10% hækkun. Hvað ætli ríkið sé að spara sér með því að láta það fólk sem þarf á þessum bleium að halda borga 10% í þeim sem áður var hægt að fá án þess að greiða? Það er verið að spara 30 millj. kr.

Hjálpartækjamiðstöðin er hætt að lána hjálpartæki sem snúa að böðun og ýmsu í því sambandi. Hætt er að útvega gervibrjóst sem var áður gert og þurfa konur, sem hafa þurft að láta fjarlægja brjóst vegna krabbameins, nú að gera aðrar ráðstafanir sem getur verið dýrt, hvort sem er að byggja brjóst upp aftur eða kaupa sér eitthvað slíkt, í stað þess að geta fengið gervibrjóst hjá Hjálpartækjamiðstöðinni. Þessar þrengingar koma verst niður á öldruðum og þeim sem hafa getað fengið hjálpartæki hingað til en þurfa nú að greiða fyrir eða jafnvel að kaupa tækin; og fólki er bent á að þessi tæki fáist í Bauhaus.

Gjaldskrárhækkanir hjá sjúkra- og iðjuþjálfurum eru miklar fyrir fólk sem hefur lág laun. Margir hópar innan heilbrigðiskerfisins hafa líka þurft að greiða miklu hærra verð fyrir lyf sín eftir að lyfjaendurgreiðslukerfið var sett á; sem er mjög gott að mörgu leyti, en það þarf samt að rétta kúrsinn af gagnvart ýmsum eins og hefur verið nefnt varðandi sykursjúka.

Ég vil einnig nefna að bílastyrkurinn hefur verið frystur undanfarin ár til þeirra sem eiga að njóta hans, til öryrkja. Hann er aðeins 1.200 þús. kr. Í öllu þessu samhengi finnst manni hálfankannalegt að vera að ræða lækkanir á áfengis-, tóbaks- og bensíngjaldi. Manni finnst það einhvern veginn á skjön þegar þeir hópar í þjóðfélaginu sem verst eru settir horfa upp á það að verið er að skerða lífskjör þeirra mikið með þeim hækkunum sem ég nefndi hér áðan, sem hafa verið að ganga í gegn með reglugerðarbreytingum og með hækkunum komugjalda á heilsugæslustöðvar sem urðu um áramótin, og var bara eins og köld vatnsgusa ofan í nýgerða kjarasamninga.

Frá því árið 2011 hefur verið samningslaust við sérfræðilækna svo að almenningur hefur greitt hærri hlut sem hefur numið sjálftökuhækkun þessara sérfræðinga. En sem betur fer komust á samningar nú í upphafi árs. En í raun tel ég að verið sé að formfesta sjálftöku sérfræðinga. Þó eru læknar sem eru komnir með samning með þak. Ég tel að skoða þurfi mjög vel hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu og fá úttekt á því hvað hefur hækkað hjá sjúkratryggðum, umfram þessi 3,6%, þessar verðlagshækkanir, sem var smurt á allt um síðustu áramót.

Hv. þm. Oddný Harðardóttir lagði fram spurningar um þessi mál og hefur fengið skriflegt svar frá heilbrigðisráðherra. Ég tel það mjög gott innlegg í þessa umræðu og það þarf að skoðast vel. Menn berja sér á brjóst yfir því að búið sé að uppfylla þátttöku ríkisins í lausn kjarasamninga, með því innleggi að lækka þessar gjaldskrár um eitt prósentustig, en um leið er annars staðar í samfélaginu verið að leggja álögur á það fólk sem síst skyldi; það er komið bakdyramegin og tekið úr öðrum vasanum um leið og aurum er stungið í hinn vasann.

Í lokin vil ég draga fram það sem á að halda á lofti hvar sem er og hvenær sem er, forgangsröðun ríkisstjórnarinnar hvað varðar jöfnuð í þjóðfélaginu. Það er ekki neinu lagi líkt að það hafi verið fyrsta verk þessarar ríkisstjórnar að fella niður veiðigjöld á stórútgerðina í landinu, sem malar gull sem betur fer. Það gull er þó ekki uppspretta úr þeirra eigin vasa heldur er uppsprettan sameign þjóðarinnar, fiskurinn í sjónum. Við eigum að fá það fjármagn inn í samfélagið til að búa öllum þjóðfélagsþegnum gott líf. Við getum það. Við erum rík þjóð. Og þessi ríkisstjórn kaus að lækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu og fella niður auðlegðarskatt og það (Forseti hringir.) er ekki góð byrjun hjá ríkisstjórn ef hún vill vinna fyrir allt fólk í landinu.